Asískur kasjúhnetu kjúklingur

Glöggir lesendur hafa örugglega tekið eftir því að ég er mjög hrifin af asískum mat. Tælenskur kasjúnhetu kjúklingurinn sem ég setti á bloggið í byrjun árs er einn af vinsælustu réttunum á blogginu og líka einn uppáhalds réttur okkar á heimilinu, ég eldaði hann svo oft á tímabili að við ákváðum fyrir nokkrum mánuðum að setja þennan rétt í pásu til þess að koma í veg fyrir að við fáum leið á honum. Ég hef því verið reglulega á stúfunum að finna asískar kjúklingauppskriftir til að prófa á meðan pásan er í gangi og þessi uppskrift er sko ekki af verri endanum. Ég viðurkenni að okkur finnst tælenski rétturinn mun betri en þessi er líka svakalega góður og tiltölulega einfaldur í gerð. Ég sá uppskriftina fyrst á Pinterest og gerði mjög miklar breytingar á henni sem komu virkilega vel út. Stórgott og vert að prófa!

Asískur kasjúhnetukjúklingur

  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 msk kornsterkja
  • 2 msk ostrusósa
  • 1 msk sojasósa

Blandið öllu saman í skál og látið marinerast á meðan annað er undirbúið.

Sósa:

  • ½ bolli kjúklingasoð
  • 1 ½ msk hunang
  • 3 tsk hoisin sósa
  • 2 msk sojasósa
  • 2 tsk dökk sojasósa (fæst í asískum búðum)
  • 1 tsk hrísgrjónaedik
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk chiliolía
  • ½ tsk hvítur pipar

Blandið öllu saman í skál og setjið til hliðar.

Restin af réttinum:

  • 5 msk bragðdauf olía
  • 1 tsk engifer duft
  • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 laukur, skorinn í bita
  • 1 búnt vorlaukur, sneiddur
  • ½ bolli water chestnuts, skornar í passlega bita (fæst í asískum búðum)
  • 1 ½ msk kínverskt shaoxing vín
  • 1 bolli kasjúhnetur (ég nota ristaðar og saltaðar)
  • 2 msk kornsterkja blandað við 2 msk kalt vatn

Hitið pönnu og setjið 3 msk af olíu á hana. Látið olíuna hitna mjög vel. Þegar olían er orðin funheit er kjúklingurinn (ásamt allri marineringu) settur á pönnuna og steiktur á öllum hliðum þar til hann er kominn með fallega steikingarhúð og næstum því eldaður í gegn. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Bætið 2 msk af olíu til viðbótar á pönnuna og látið hana hitna vel. Setjið hvítlauk, engifer, papriku, vorlauk og water chestnuts á pönnuna og steikið allt saman í nokkrar mínútur. Hellið kínversku shaoxing víni yfir og látið sjóða í 10 sekúndur. Hellið sósunni yfir þetta og látið hana þykkna aðeins. Setjið kjúklinginn, ásamt öllum safa af honum, og kasjúhneturnar á pönnuna og blandið öllu mjög vel saman. Látið þetta malla í smástund og bætið vatnsblandaðri kornsterkju á pönnuna. Berið fram þegar sósan hefur náð passlegri þykkt.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir