„Marry Me“ kjúklingabollur

Flestir kannast eflaust við hinn víðfræga rétt Marry Me Chicken. Ég hef eldað hann og Marry Me kjúklingapasta óteljandi sinnum, alltaf við mikla lukku. Ég varð því mjög spennt þegar ég sá Marry Me kjúklingabollur á Pinterest og prófaði réttinn skömmu seinna. Okkur fannst hann mjög góður og skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kjötbollum. Það er eflaust prýðilegt að bera réttinn fram með pasta eða kartöflumús en ég bar þær bara fram einar og sér og okkur fannst það koma mjög vel út.

Marry Me kjúklingabollur:

Kjúklingabollur:

  • 450 g kjúklingahakk
  • 1 egg, upphrært
  • ½ bolli ferskrifinn parmesan ostur
  • 1/3 bolli brauðrasp eða brauðmylsna
  • 1 msk hökkuð fersk steinselja eða 1 tsk þurrkuð steinselja
  • 1 tsk ítalskt krydd (ég notaði Pizzakrydd frá Prima)
  • 3 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • 1 tsk laukduft
  • ½ salt
  • ½ nýmulinn svartur pipar
  • 2-3 msk smjör

Blandið öllum hráefnunum, nema smjörinu, vel saman og látið standa í ísskáp í 30 mínútur. Bræðið smjörið á pönnu og mótið litlar bollur. Steikið bollurnar á öllum hliðum þar til þær eru fallega brúnar. Takið af pönnunni og setjið til hliðar.

Sósan:

  • 1 bolli sóþurrkaðir tómatar í olíu, hakkaðir
  • 3 msk olían af tómötunum
  • 3 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 bolli kjúklingasoð
  • 1 bolli rjómi
  • ½ bolli ferskrifinn parmesan ostur
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 tsk ítalskt krydd
  • Smá rauðar chiliflögur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • ¼ bolli fersk basilika, skorin í strimla

Hitið olíuna á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á. Setjið hvítlaukinn á pönnuna og steikið í 30 sekúndur. Bætið sólþurrkuðum tómötum á pönnuna og steikið í 2 mínútur. Setjið tómatpaste á pönnuna og steikið áfram í 1 mínútu. Hellið kjúklingasoðinu yfir þetta og látið malla í smástund. Notið sleif eða steikingarspaða til þess að ná öllu af botninum á pönnunni. Bætið rjóma, kjúklingatening og parmesan osti á pönnuna og látið ostinn bráðna. Kryddið með ítölsku kryddi, salti, pipar og chili flögum eftir smekk. Látið sósuna malla í 2-3 mínútur. Setjið þá bollurnar aftur á pönnuna og látið þær malla í sósunni í 10-15 mínútur. Stráið ferskri basiliku yfir réttinn og berið strax fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir