Djúpsteikt svínakjöt í dragonsósu

Í dag er 17. júní og ég skammast mín ekkert fyrir að ætla að vera heima og hafa það notalegt í dag. Satt að segja hef ég aldrei verið fyrir svona hátíðadaga þar sem allir staðir fyllast af fólki, það gengur ekkert að fá borð á veitingastöðum (og ef maður finnur eitthvað laust borð er það undantekningarlaust óhreint), að finna bílastæði er eins og að leita að nál í heystakki og ekkert hægt að spjalla við neinn fyrir hávaða. Nei, takk, sama og þegið. Yfirleitt höfum við bara farið úr bænum á þessum degi en í dag var það ekki í boði, svo við tókum þá ákvörðun að vera heima og slappa af. Ég verð þó að viðurkenna að ég er mjög hrifin af öllum dögum sem gefa manni ástæðu til þess að gera vel við sig í mat og drykk. Ég bjó til brauðtertu og vöfflur í hádeginu og ætla að hafa eitthvað svakalega gott í matinn í kvöld og þegar ég er búin að setja inn þessa færslu ætla ég að halda áfram með spennusögu sem ég byrjaði á í gærkvöldi og hélt mér vakandi frameftir nóttu. Súper notalegt og einmitt eins og ég vil hafa svona daga.

Áður en lesturinn heldur áfram ætla ég að gefa ykkur uppskrift af djúpsteiktu svínakjöti í dragonsósu. Ég eldaði þennan rétt í vetur og okkur fannst hann svo æðislega góður að ég ætlaði að setja hann beint á bloggið en þegar ég skoðaði myndirnar voru þær svo ljótar að ég eyddi þeim og ákvað að elda réttinn aftur fljótlega fyrir betri myndir. Hinsvegar gleymdi ég svo þessum rétti og mundi ekki eftir honum fyrr en í síðustu viku, hann var þá eldaður strax og betri myndir teknar. Rétturinn er svo góður að ég skil ekki hvernig ég gat gleymt honum í marga mánuði, en hér kemur uppskriftin.

Djúpsteikt svínakjöt í dragon sósu

Kjöt og marinering:

  • 600 g svínalund, skorin í munnbita
  • 2 msk sojasósa
  • 1 egg
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • ½ tsk paprika
  • ½ tsk engiferduft
  • ½ tsk cayenne pipar
  • ½ tsk hvítur pipar
  • Smá salt

Blandið öllu saman í skál og látið standa í 30 mínútur

Chicken Breading:

  • ½ bolli hveiti
  • ¼ bolli kornsterkja
  • ½ msk chili duft
  • ¼ bolli olía til steikingar

Blandið saman hveiti, kornsterkju og og chili dufti og blandið saman við marineraða kjötið.

Sósa:

  • ¼ bolli sojasósa
  • ¼ bolli tómatsósa
  • 3 msk hunang
  • 2 msk ostrusósa
  • 2 msk sambal olelek
  • 1 msk kínverskt svart edik
  • 1 msk sesamolía
  • 1 ½ msk kornsterkja

Blandið öllu saman í skál og setjið til hliðar.

Stir fry:

  • 1 laukur, skorinn í báta
  • 1 bolli kasjúhnetur (ég nota saltaðar og ristaðar)
  • 1 rauð paprika, sneidd
  • 8 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 msk bragðdauf olía
  • 2-3 msk ferskrifið engifer
  • 1 búnt vorlaukur, skorinn í 1.5 cm bita (takið frá af græna partinum til að bera fram með réttinum)

Hitið ¼ bolla af bragðdaufri olíu á pönnu og steikið svínakjötið á öllum hliðum í nokkrum skömmtum. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Þegar allt kjötið er steikt er 1 msk af bragðdaufri olíu bætt á pönnuna. Steikið lauk, papriku, vorlauk, engifer og hvítlauk í nokkrar mínútur. Hærið sósuna upp (kornsterkjan vill setjast á botninn) og hellið yfir grænmetið á pönnunni. Látið þetta malla í 1 mínútu. Bætið svínakjötinu og kasjúhnetunum á pönnuna og blandið öllu vel saman. Stráið sesamfræjum yfir réttinn (ef vill) og berið strax fram með hrísgrjónum, græna partinum af vorlauknum og sojaósu.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir