Í fyrra útbjó ég nokkrar nestishugmyndir fyrir Matarhornið hjá Morgunblaðinu. Meðal þess sem ég útbjó voru þessi dásamlega góðu muffins með kanil og súkkulaðibitum. Ég var búin að steingleyma þeim en var svo í baksturshugleiðingum í dag (enda ekki annað hægt með þetta veður í gangi!) og mundi þá að ég átti eftir að setja þessi muffins hingað inn. Ekki seinna vænna, þar sem þær eru alveg frábærar og hverfa ofan í mannskapinn.
Muffins með kanil og súkkulaðibitum
- 2 bollar hveiti
- ½ bolli hvítur sykur
- ½ bolli ljós púðursykur
- 2 tsk lyftiduft
- ¼ tsk salt
- 1 msk kanill
- ½ bolli smjör, brætt og látið kólna aðeins
- 2 egg
- 2/3 bolli mjólk
- 2 tsk vanillusykur
- 150 g hakkað suðusúkkulaði
Hitið ofn í 175°. Smyrjið muffinsform með 12 hólfum eða raðið pappírs muffinsformum í hólfin (eða á bökunarplötu ef þið eigið ekki stórt muffinsform). Hrærið saman smjöri, eggjum, vanillusykri og mjólk. Blandið saman hveiti, kanil, sykri, púðursykri, salti og lyftidufti í annarri skál. Bætið smjörblöndunni saman við og hrærið öllu vel saman. Blandið hökkuðu suðusúkkulaði saman við. Skiptið deiginu niður í muffinsformin og bakið í 18-20 mínútur.
