Ég hef haft lítinn tíma til þess að sinna blogginu undanfarið, sem mér finnst afskaplega leiðinlegt. Ég hef mjög gaman af öllu sem tengist blogginu en allt tekur þetta tíma og stundum eru bara ekki nógu margir tímar í sólarhringnum. Síðustu vikur hafa verið mjög annasamar og ég hef verið mikið í að elda einfalda rétti og uppskriftir sem ég kann utan að, en það er þó farið að sjá aðeins fyrir endann á þessu annríki og ég er með allskonar skemmtileg plön fyrir eldhúsið sem munu vonandi öll enda hér á blogginu fyrr heldur en síðar. Sem betur fer er ég með safn af uppskriftum sem bíða eftir að komast hingað inn og þegar ég fór yfir uppskriftirnar fyrr í dag mundi ég eftir Mongolian Chicken sem ég eldaði í vetur og sló rækilega í gegn. Við vorum þrjú í mat og allt kláraðist upp til agna. Ég myndi því segja að uppskriftin sé fyrir fjóra eða 2-3 mjög svanga. Rétturinn rífur töluvert í, svo ég mæli eindregið með að minnka chili magnið ef þið þolið illa sterkt.
Mongolian Chicken
- 600 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
- ¼ bolli kornsterkja
- 1/3 bolli bragðdauf olía
- 6 hvítlauksgeirar, fínhakkaðir
- 2 rauðir chili pipar, skornir í þunnar sneiðar + meira til að strá yfir réttinn
- 8 þunnar sneiðar af fersku engifer
- 1 búnt vorlaukur, skorinn í 1 cm bita (takið frá smá af græna partinum til þess að strá yfir réttinn)
- 4 msk hoisin sósa
- 2 msk sojasósa
- 2 msk púðursykur
- 2 tsk sesamolía
- ½ bolli vatn
- 1 msk kornsterkja
Setjið kjúklingabringubita og ¼ bolla kornsterkju saman í skál og blandið vel saman. Hitið 1/3 bolla af bragðdaufri olíu á pönnu á háum hita. Steikið kjúklinginn á öllum hliðum þar til hann er fallega gullinbrúnn. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið hvítlauk, chili pipar, engifer og vorlauk í nokkrar mínútur. Blandið ½ bolla af vatni saman við 1 msk af kornsterkju og setjið til hliðar. Bætið hoisin sósu, sojasósu, púðursykri og sesamolíu á pönnuna og blandið öllu vel saman. Bætið kornsterkju blöndunni á pönnuna og látið sósuna þykkna. Setjið kjúklinginn á pönnuna, blandið öllu vel saman og látið þetta malla í 2 mínútur. Berið strax fram með hrísgrjónum og sojasósu.

