Ég elska kjötbollur með rjómasósu og rifsberjahlaupi og gæti eflaust lifað á slíkum mat vikum saman án þess að fá leið á því. Kjötbollur eru eiginlega haust- og vetrarmatur fyrir mér og því finnst mér upplagt að deila uppskriftinni af þeim núna, þó það eigi að heita sumar enda er góður matur nokkurn veginn það eina sem lýsir upp líkama og sál þegar veðrið lætur svona. Þessar ofnbökuðu kjötbollur eru gjörsamlega himneskar, þó ég segi sjálf frá. Kryddin í bollunum fara svo dásamlega vel saman og gera þær svo bragðgóðar að það nær engri átt. Ekki skemmir fyrir að þær eru eldaðar í ofni og því þarf ekki að standa í neinu steikingarbrasi. Brjálæðislega gott og mjög vert að prófa!
Ofnbakaðar kjötbollur
- 700 g nautahakk
- 230 g svínahakk
- 1 egg, upphrært
- ¼ bolli nýmjólk
- ¼ bolli fínhakkaður laukur
- 1 bolli Ritzkex, fínmulið
- ½ bolli ferskrifinn parmesan ostur (vel þjappað)
- 5 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 1 tsk salt
- 1 tsk nýmulinn svartur pipar
- 1 tsk paprika
- 1 tsk þurrkað timjan
- 1 tsk hvítlauksduft
- 1 tsk laukduft
- 1 msk nautakraftur frá Oscar
- ½ msk andakraftur frá Oscar
Hitið ofn í 175°. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír og smyrjið hana lítillega með PAM. Blandið öllum hráefnunum vel saman og mótið bollur á stærð við golfkúlu úr kjötblöndunni. Raðið bollunum á ofnplötuna og eldið í ofni í 20-25 mínútur.
