Kjúklingasósan hennar Freyju

Þessi dásamlega góða kjúklingasósa kemur frá kærri vinkonu, sem var svo elskuleg að gefa mér uppskriftina og leyfi til þess að setja hana á bloggið. Takk elsku Freyja, fyrir uppskriftina og allt hitt. Þessi sósa er svo dásamlega góð að maður gæti hreinlega drukkið hana. Ekki skemmir fyrir hvað hún er súper einföld í gerð og ekki mörg hráefni. Ég bar sósuna fram með kjúklingi og rótargrænmeti en franskar og hrísgrjón myndu eflaust fara prýðilega vel með sósunni líka. Þið bara verðið að prófa!

Sósan hennar Freyju

  • 50 g smjör
  • 2 msk hveiti
  • 500 ml kjúklingasoð (annað hvort af kjúklingnum eða úr fernu)
  • 2 kjúklingateningar
  • ½ msk sojasósa
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 2 dl rjómi
  • Sósulitur til að dekkja sósuna (má sleppa)
  • Maizena til að þykkja (má sleppa)

Bræðið smjör í potti á miðlungsháum hita. Bætið hveitinu saman við og steikið í smástund. Bætið soðinu smám saman í pottinn og hrærið stöðugt í á meðan. Setjið kjúklingateninga, sojasósu, salt og pipar eftir smekk og rjóma í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna malla í 15-20 mínútur. Dekkið með sósulit og þykkið með maizena ef vill. Smakkið til með salti, pipar og sojasósu.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir