Pasta með camembert og beikoni

Fyrir skömmu var ég í fríi frá vinnunni þar sem betri helmingurinn átti stórafmæli og ég vildi láta alla vikuna snúast um hann af því hann er er jú bara svo dásamlegur og á allt hið besta skilið. Ég ákvað fyrirfram (ég geri vikumatseðla og stórinnkaup allar helgar, mjög þægilegt og auðveldar vinnuvikuna) að einn daginn myndi ég elda mjög góðan hádegismat handa okkur og hafa svo bara léttan kvöldmat sem við gætum borðað yfir sjónvarpinu (valið féll á kampavín og tortilla rúllur með döðlum og beikoni, hversu dásamlegt!). Ég velti þessu fyrir mér fram og til baka, enda var mér mikið í mun að vikan yrði fullkomin í alla staði. Eftir miklar vangaveltur og pælingar var niðurstaðan sú að ég myndi elda góðan pastarétt, fullan af allskonar gúmmelaði. Ég ákvað að karamellusera lauk, smjörsteikja sveppi og beikon og nota camembert smurost í sósuna. Útkoman var gjörsamlega frábær pastaréttur sem var dásamaður við hvern bita og ég var fljót að skrifa niður það sem fór í réttinn til þess að geta deilt uppskriftinni með ykkur.

Pasta með camembert smurosti, beikoni, sveppum og lauk

  • 500 g tagliatelle
  • 350 g beikon
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 2 laukar, skornir í þunna báta
  • 1 tsk púðursykur
  • 8 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 box camembert smurostur
  • ½ dós Campbell‘s sveppasúpa
  • 250 ml kjúklingasoð
  • 300 ml rjómi
  • 1 ½ kjúklingateningur
  • ½ msk sojasósa
  • 1 msk rifsberjahlaup
  • Nýmulinn svartur pipar
  • Handfylli smátt söxuð steinselja
  • Ólífuolía
  • Smjör

Bræðið smjör og ólífuolíu á rúmgóðri pönnu á vægum hita. Setjið laukinn á pönnuna og steikið hann í 20 mínútur. Að þeim tíma liðnum er púðursykri og hvítlauk bætt á pönnuna og allt látið malla saman í 20-30 mínútur til viðbótar. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Hækkið hitann og bræðið meira smjör á pönnunni og steikið sveppina í 8 mínútur. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið beikonið þar til stökkt. Setjið karamelluseraða laukinn og sveppina aftur á pönnuna og blandið öllu vel saman. Bætið camembert smurost, kjúklingasoði, Campbell’s súpu, rjóma, kjúklingateningum, sojasósu og rifsberjahlaupi á pönnuna og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann á lágan og látið þetta malla á meðan tagliatelle er soðið upp úr brimsöltu vatni. Undir lokin er handfylli af steinselju sett á pönnuna, ásamt nýmuldum svörtum pipar eftir smekk. Þegar pastað er soðið er vatninu hellt af og pastað sett á pönnuna. Látið pastað malla í smástund í sósunni. Berið fram með ferskrifnum parmesan ef þess er óskað og njótið í botn.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir