Kartöflumús úr soðnum kartöfluflögum

Fyrir skömmu sendi systir mín mér myndband á Tik Tok þar sem kartöfluflögur voru soðnar í vatni, látið renna af þeim og gerð kartöflumús úr þeim. Systir mín sagðist hafa prófað þetta og bætt við ferskrifnum parmesan osti, rjómaosti, smjöri, sýrðum rjóma, ógrynni af hvítlauksdufti, salti, pipar og smá rjóma og að úr þessu hafi orðið ein besta kartöflumús sem hún og hennar fjölskylda hafi smakkað. Ég var fljót að prófa þetta og fannst þetta svo gott að ég er búin að gera kartöflumús svona nokkrum sinnum síðan þá. Ég hef borið hana fram með nauti og bernaise, kalkúnabringu, snitseli og kjötbollum. Allt hefur þetta komið alveg æðislega vel út og alltaf mikið borðað af kartöflumúsinni. Ekki skemmir fyrir hvað þetta er einfalt og fljótlegt. Þið bara verðið að prófa!

Kartöflumús úr soðnum kartöfluflögum:

  • 1 poki Lay’s kartöfluflögur með sour cream and onion
  • 80 g smjör
  • 100 g rjómaostur
  • 2-3 handfylli ferskrifinn parmesan ostur
  • 60 g sýrður rjómi
  • Ógrynni af hvítlauksdufti (ég set alveg 2-3 tsk)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir (má sleppa)
  • 1 handfylli steinselja, fínhökkuð (má sleppa)
  • Rjómi eftir þörfum

Hitið vatn að suðu í rúmgóðum potti. Sjóðið kartöfluflögurnar í 3-5 mínútur. Látið renna af þeim í sigti og færið svo yfir í hrærivélaskál. Setjið rjómaost, parmesan ost, sýrðan rjóma, smjör, hvítlauksduft, hvítlauk, steinselju og salt og pipar eftir smekk í skálina. Þeytið þetta saman og bætið rjóma og/eða nýmjólk smám saman saman við kartöflumúsina þar til óskaðri áferð og þykkt er náð.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir