Marengsterta með mokkarjóma

Um helgina bauð ég fólki til okkar í mat og gerði svo brjálæðislega góða marengstertu að ég má til með að gefa uppskriftina af henni þó tertan hafi því miður ekki myndast nógu vel. Það var mjög grátt úti þennan dag og sama hvað ég reyndi, þá bara leit tertan ekki nógu vel út í mynd en þið takið vonandi viljann fyrir verkið og prófið tertuna því hún er bæði alveg æðislega góð og mjög falleg á borði (í persónu). Gestirnir voru allir stórhrifnir af tertunni og hún kláraðist næstum því, þó við værum ekki mörg. Ég notaði nýja Royal mokka búðingin í rjómann og gerði súkkulaðikaramellu og þetta fór svo vel saman að það bara nær engri átt.

Marengsterta með mokka-rjóma og súkkulaði-karamellukremi

  • 4 eggjahvítur
  • 1 dl sykur
  • 2 dl púðursykur
  • 5 dl Rice Krispies

Hitið ofn í 150° með blæstri. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Stífþeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan hreyfist. Blandið Rice Krispies varlega saman við með sleikju. Dreifið þessu í hring á bökunarplötuna þannig að úr verði ca. 26 cm hringur. Bakið í klukkutíma, slökkvið þá á ofninum og látið botninn kólna þar.

Mokka-kókosbollu-rjómi:

  • 5 dl rjómi
  • 4 kókosbollur
  • Nóa kropp eftir smekk
  • 1 pakki Royal mokka búðingur
  • 1 bolli nýmjólk

Þeytið saman mokka búðingsduft og nýmjólk og geymið í ísskáp í 5 mínútur. Þeytið rjómann. Blandið kókosbollunum og nóa kroppinu varlega saman við og að lokum mokkabúðingnum.

Súkkulaði-karamellusósa:

  • 1 poki Góu kúlur
  • 130 g Mars
  • 80 g Rolo
  • 1.5 dl rjómi
  • 50 g smjör
  • 150 g suðusúkkulaði
  • Hindber og brómber eftir smekk

Bræðið allt saman í potti. Þegar sósan er orðin alveg slétt er henni hellt yfir í mælikönnu með stút. Setjið um 2/3 af sósunni yfir marengsbotninn. Dreifið mokka-kókosbollurjómanum yfir. Raðið hindberjum og brómberjum yfir rjómann (og jafnvel Nóa kroppi ef vil) og dreifið restinni af sósunni yfir. Geymið í kæli þar til borið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir