Lúða í súrsætri sósu

Lúða er uppáhalds fiskurinn okkar og það var ekki við öðru að búast en að ég fengi stjörnur í augun þegar ég sá uppskrift af lúðu í súrsætri sósu á veraldarvefnum. Við elskum lúðu, við elskum súrsæta sósu og í raun allan klístraðan asískan mat. Ég breytti því vikumatseðlinum lítillega og eldaði réttinn strax deginum eftir. Okkur þótti hann mjög góður en mér fannst þó vanta einhvern neista í réttinn og punktaði hjá mér það sem ég taldi að mætti betur fara. Nokkru síðar eldaði ég réttinn aftur og ég hitti beint í mark með mínum breytingum, því rétturinn var ólýsanlega og dásamlega góður. Maðurinn minn gekk meira að segja svo langt að segja að þessi réttur sé það besta sem ég hef eldað og gaf réttinum 11 af 10 í einkunn. Rétturinn er orðinn „staple“ á okkar heimili og er eldaður reglulega. Uppskriftin er drjúg, svo það er alltaf afgangur sem við borðum daginn eftir og hann er ekki síðri þá. Þið bara verðið að prófa!

Lúða í súrsætri sósu

  • 900 g smálúða, roðflett og skorin í 1.5 cm bita
  • ½ bolli kornsterkja

Blandið þessu saman í skál og setjið til hliðar.

Stir fry:

  • 1 rauð paprika, skorin í teninga
  • 1 græn paprika, skorin í teninga
  • 1 laukur, skorinn í bita
  • 1 búnt vorlaukur, sneiddur
  • ½ bolli salthnetur (má sleppa)
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 4 msk bragðdauf olía

Súrsæt sósa:

  • 1 msk kornsterkja
  • ¼ bolli ljós púðursykur (ef þið eigið hann ekki, notið þá bara hvítan sykur)
  • ¼ bolli sojasósa
  • 4 msk tómatsósa
  • ¼ bolli eplaedik
  • ½ bolli kjúklingasoð

Blandið öllu saman í skál og setjið til hliðar.

Hitið pönnu þar til pannan er orðin mjög heit. Setjið þá 2 msk af olíu á pönnuna og lækkið hitann á miðlungsháan. Steikið helminginn af lúðubitunum á pönnunni í 2-4 mínútur á hvorri hlið. Takið af pönnunni, setjið til hliðar, setjið 2 msk af olíu á pönnuna og endurtakið þetta skref með hinn helminginn af lúðunni. Þegar lúðan er tilbúin er hitinn á pönnunni hækkaður og paprikur, laukur, vorlaukur og hvítlaukur steikt í 2-3 mínútur. Bætið salthnetum á pönnuna, séu þær notaðar, og blandið öllu vel saman. Hellið sósunni yfir þetta og látið hana þykkna aðeins. Bætið lúðunni á pönnuna og látið allt malla saman í 2 mínútur. Berið strax fram með hrísgrjónum og sojasósu.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir