Þegar ég kynntist manninum mínum var hann ansi fljótur að átta sig á að ég er nokkuð flink í eldhúsinu, alveg eins og konan hans heitin var. Hann sagði mér þá frá nautagúllasi sem hún bjó reglulega til sem fjölskyldan kallaði „fljótsteik“ og var í miklu uppáhaldi hjá öllum. Uppskriftin fór með henni þegar hún lést langt fyrir aldur fram og maðurinn minn og synir þeirra reyndu árum saman að finna út hvernig hún eldaði fljótsteik, án árangurs. Núna, eftir tæplega 4 ár af stanlausri leit á veraldarvefnum, eftir að hafa flett í gegnum ótal uppskriftabækur og heyrt ótal lýsingar og kenningar frá þeim sem muna eftir réttinum, þá hefur mér loksins tekist að leika þetta eftir tilfinningu, öllum til mikillar gleði. Þetta nautagúllas er súper fljótlegt, það tekur innan við 15 mínútur að koma því á matarborðið, og er alveg stórgott og passar því vel þegar mann langar í eitthvað gott en tími og orka er á þrotum. Borið fram með kartöflumús er þetta gúllas algjört lostæti og ég mæli eindregið með að þið prófið.
Fljótsteik:
- 1 kg nautagúllas
- 3 msk ólífuolía
- 1 tsk hvítur pipar
- 2 tsk nýmulinn svartur pipar
- 1 bolli nautasoð
- 1 bolli vatn
- 1 nautateningur
- 1 msk Worcestershire sósa
- Nokkir dropar sojasósa
- 2 tsk sykur
Setjið nautagúllas, hvítan pipar, svartan pipar og ólífuolíu saman í skál. Blandið þessu vel saman og látið marinerast í 10 mínútur. Setjið rúmgóða pönnu eða steypujárnspott á eldavélina og kveikið undir. Látið pönnuna/pottinn hitna mjög vel. Snöggsteikið nautagúllasið þannig að það fái fallega steikingarhúð á öllum hliðum í nokkrum skömmtum. Þegar allt kjötið er brúnað er nautasoði og vatni hellt yfir það. Bætið nautatening, sykri, sojasósu og Worcestershire sósu saman við og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið þetta malla í 10 mínútur.