Besta marengsterta í heimi

Ég er alin upp við að það séu marengstertur í afmælum, fermingum, á jólunum og í matarboðum. Meira að segja fermingarkakan mín var marengsterta. Þrátt fyrir það hef ég aldrei verið neitt svakalega sólgin í marengstertur, því mér finnst þær alltaf eitthvað of eða van. Of sætar, ekki nógu sætar, of mikill þeyttur rjómi… alltaf eitthvað. Ég borða helst ekki þeyttan rjóma og þarf yfirleitt að skrapa megnið af honum burt þegar ég borða marengstertur í veislum. Þessi kaka, aftur á móti, er gjörsamlega fullkomin. Hún varð til fyrir algjöra tilviljun í hálfgerðri ísskáps- og nammi skúffu tiltekt þegar ég átti 6 eggjahvítur sem ég þurfti að losna við. Ég endaði á að gera marengstertu fyrir matarboð og setti saltkaramellubúðingsduft frá Royal, kókosbollur og Daim í rjómann. Karamellan var gerð úr afgangs Mars, afgangs Rolo og Góu karamellukúlum sem ég vildi losna við og o-m-g, þvílíkur draumur þessi terta. Við vorum öll sammála um að þetta sé besta marengsterta í heimi og ég ætla að bjóða upp á hana í kvöld í tilefni sprengidagsins. Þið bara verðið að prófa!

Marengsterta með kókosbollurjóma, daim og karamellusósu

  • 6 eggjahvítur
  • 200 g sykur
  • 100 g púðursykur
  • 3 bollar Rice Krispies

Hitið ofn í 150° með blæstri. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Stífþeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan hreyfist. Blandið Rice Krispies varlega saman við með sleikju. Dreifið þessu í hring á bökunarplötuna þannig að úr verði ca. 26 cm hringur. Bakið í klukkutíma, slökkvið þá á ofninum og látið botninn kólna þar.

Kókosbollurjómi:

  • 5 dl rjómi
  • 4 kókosbollur
  • 1 poki Daim kurl
  • 1 pakki Royal saltkaramellu búðingur
  • ¾ bolli nýmjólk

Þeytið saman saltkaramellubúðingsduft og nýmjólk og geymið í ísskáp í 5 mínútur. Þeytið rjómann. Blandið kókosbollunum og Daim kurlinu varlega saman við og að lokum saltkaramellubúðingnum.

Karamellusósa:

  • 1 poki Góu kúlur
  • 130 g Mars
  • 60 g Rolo
  • 1.5 dl rjómi
  • 50 g smjör
  • Jarðaber eftir smekk

Bræðið allt saman í potti. Þegar sósan er orðin alveg slétt er henni hellt yfir í mælikönnu með stút. Setjið um 2/3 af sósunni yfir marengsbotninn. Dreifið kókosbollurjómanum yfir. Raðið jarðaberjum yfir rjómann og dreifið restinni af karamellusósunni yfir jarðaberin. Geymið í kæli þar til borið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir