Við á þessu heimili erum alveg einstaklega hrifin af öllum sterkum og klístruðum asískum mat. Því vissi ég, um leið og ég sá þessa uppskrift á Pinterest, að þetta myndi slá í gegn hjá okkur. Ég eldaði réttinn stuttu seinna og það er óhætt að segja að hann vakti mikla lukku. Við kláruðum hann upp til agna og ég hugsa að ég muni elda hann aftur fljótlega. Ekki skemmir fyrir hvað rétturinn er fljótgerður, það tekur innan við 20 mínútur að koma honum á matarborðið.
Black Pepper Chicken
- 500 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
- 2 msk bragðdauf olía
- Salt eftir smekk
- 2 laukar, skornir í bita
- 1 græn paprika, skorin í bita
- 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
- 1 tsk þurrkað eða ½ msk ferskt engifer
- 1 rauður ferskur chili, skorinn í sneiðar (ég notaði tvo)
- 2 msk kornsterkja
- ½ tsk nýmulinn svartur pipar
- 2 handfylli salthnetur (má sleppa)
Sósa:
- 1 tsk nýmulinn svartur pipar
- 3 msk sojasósa
- 1 msk dökk sojasósa (fæst í asískum búðum)
- 1 msk hrísgrjónaedik
- ½ tsk púðursykur
- 1 tsk sesamolía
- 1 tsk kornsterkja
- 2 msk kjúklingasoð eða vatn
Hrærið öllum hráefnunum í sósuna saman í skál og setjið til hliðar. Setjið kjúklinginn, 1 msk af sósunni, 2 msk kornsterkju, ½ tsk pipar og salt saman í skál og blandið mjög vel saman. Setjið til hliðar og látið marinerast á meðan annað er undirbúið. Skerið niður papriku, lauk, hvítlauk og chili pipar og setjið í skál, ásamt engifer dufti/fersku engifer. Hitið 1 msk af bragðdaufri olíu á pönnu þar til hún er orðin mjög heit. Steikið kjúklinginn í 2 mínútur á hvorri hlið, þannig að hann sé með fallega steikingarhúð en ekki alveg eldaður í gegn. Gerið þetta í nokkrum skömmtum ef þörf er á. Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið til hliðar. Setjið 1 msk af olíu á pönnuna og steikið grænmetið á mjög háum hita í nokkrar mínútur, látið það dökkna vel. Bætið salthnetunum á pönnuna og steikið með grænmetinu (séu þær eru notaðar). Lækkið hitann á lágan (ég nota stillingu 3.5 af 9) og hellið sósunni yfir grænmetið. Látið malla í 30 sekúndur, bætið þá kjúklingum á pönnuna og látið allt malla saman í nokkrar mínútur. Hrærið vel í þessu á meðan. Berið strax fram með hrísgrjónum og sojasósu.
