Pizza með bláberjasultu

Ég fékk matarkörfu með allskonar gúmmelaði í jólagjöf frá vinnunni, sú karfa innihélt m.a. Brie ost sem mér fannst upplagt að nota á súrdeigspizzu með hráskinku. Svo datt mér í hug að nota bláberjasultu í staðinn fyrir pizzasósu og dreifa ruccola og parmesan osti yfir pizzuna. Útkoman var gjörsamlega klikkgóð og pizzan varð bara betri og betri eftir því sem hún kólnaði yfir daginn. Við vorum alltaf að fara inn í eldhús og skera okkur litlar sneiðar af henni, svo góð var hún að það var ekki hægt að standast hana. Þar sem pizzan kólnar vel er upplagt að bjóða uppá hana sem forrétt eða sem meðlæti með fordrykk og bera hana þá fram með ísköldu kampavíni eða ísköldum bjór.

Pizza með bláberjasultu og hráskinku

  • 1 kúla súrdeigspizzadeig (ég notaði deig úr Mosfellsbakaríi)
  • 1 krukka St Dalfour bláberjasulta
  • Rifinn ostur (ég notaði sterkan gouda)
  • 1 stk Brie ostur
  • 1-2 bréf hráskinka
  • Ruccola eftir smekk
  • Rifinn parmesan ostur eftir smekk

Hitið ofn í 200°. Smyrjið bökunarplötu með PAM eða ólífuolíu. Fletjið deigið út á plötunni með puttunum þar til það hefur fyllt út í plötuna. Dreifið bláberjasultu eftir smekk yfir botninn (ég notaði næstum því alla krukkuna) og rifnum osti yfir bláberjasultuna. Raðið sneiðum af Brie osti yfir. Bakið í ofni þar til botninn er orðinn stökkur og osturinn kominn með fallegan lit. Takið pizzuna út og dreifið hráskinku yfir hana. Raðið ruccola eftir smekk yfir hráskinkuna og endið á að rífa vel af ferskum parmesan osti yfir pizzuna. Einnig þykir mér gott að mylja svartan pipar yfir hana en því má sleppa.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir