Ég gjörsamlega dýrka ostakökur. Þær eru svo dásamlega bragðgóðar, léttar í maga og oftar en ekki alveg gullfallegar á borði. Þegar ég bjó í Boston gerði ég mér reglulega ferð á Cheesecake Factory og keypti mér nokkrar sneiðar til þess að taka með mér heim og eiga í ísskápnum og naut þess afskaplega mikið. Einnig stekk ég oftast á ostakökur þegar ég sé þær á matseðlum veitingastaða og verð aldrei fyrir vonbrigðum. Samt er ég mjög löt við að gera ostakökur sjálf, ég veit ekki alveg af hverju. Einhver ótti við að kakan misheppnist eða verði ljót þegar hún er tekin úr forminu. Eflaust algjör vitleysa í mér, þar sem ég hef í rauninni aldrei klúðrað ostaköku. Þessari ostaköku er hinsvegar ekki hægt að klúðra, hún er svo einföld í gerð. Auk þess er hún falleg á borði og alveg hreint dásamlega bragðgóð. Meira að segja manninum mínum og bróður mínum þykja þessi ostakaka alveg æðislega góð, sem er mikið hrós, þar sem hvorugur þeirra er hrifinn af ostakökum yfirleitt (ég veiiiit, stórfurðulegt). Þessi ostakaka passar við öll tilefni og er mjög hentug fyrir matarboð og veislur þar sem hún er geymd í frysti og því hægt að gera hana með löngum fyrirvara.
Saltkaramellu ostakaka með rice krispies botni
Rice Krispies köku botn:
- 150 g suðusúkkulaði
- 150 g smjör
- 70 g Mars
- 80 g Rolo
- 6 msk síróp
- 6.5 bollar Rice Krispies
Bræðið smjör, súkkulaði, Mars, Rolo og síróp saman í potti þar til allt hefur bráðnað og orðið slétt. Setjið Rice Krispies í skál, hellið súkkulaðiblöndunni yfir og hrærið öllu vel saman með sleif. Klæðið 26-28 cm smelluform með bökunarpappír og þrýstið blöndunni jafnt í botninn og upp með hliðunum. Setjið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.
Fylling:
- 200 g rjómaostur
- 1 pakki Royal saltkaramellubúðingur
- 1 bolli nýmjólk
- 2.5 dl rjómi
- 1 bolli flórsykur
- Jarðaber
- Saltkaramellusósa
Blandið saman rjómaosti og flórsykri í skál. Þeytið saman saltkaramellubúðing og nýmjólk og setjið í ísskáp í 5 mínútur. Þeytið rjómann. Blandið þessu öllu vel saman með sleikju og hellið yfir Rice Krispies kökubotninn. Geymið í frysti en takið kökuna út 2 klukkustundum áður en hún er borin fram. Skreytið með jarðaberjum og saltkaramellusósu sé þess óskað.


*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay