Sloppy Joes með beikoni og bjór

Í kvöld eldaði ég svo brjálæðislega góðan kvöldmat að ég get bara ekki setið á mér og verð að deila uppskriftinni samstundis. Um er að ræða ofnbakaða Sloppy Joes með beikoni, bjór, cheddar osti og dásamlegum gljáa úr sinnepi, púðursykri og smjöri. Við vorum með gesti í mat og við bara ætluðum ekki að geta hætt að borða, svo góður var maturinn. Kjötblandan er ótrúlega bragðgóð og fer svo vel með beikoni og cheddar osti að það bara nær engri átt og ég ætlaði ekki að geta hætt að smakka á kjötblöndunni þegar ég raðaði henni á hamborgarabrauðin. Það var smá afgangur af kjötblöndunni sem ég setti í frystinn og ég get ekki beðið eftir að dreifa henni yfir pizzabotn einhvern tímann þegar ég kem þreytt heim úr vinnu og langar í eitthvað gott en fljótlegt.

Sloppy Joes með beikoni og bjór

  • 900 g nautahakk
  • 10 sneiðar beikon + meira til þess að setja á borgarana
  • 1 lítill laukur, fínhakkaður
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 1 bolli tómatsósa
  • 1 lítil dós tómatpúrra
  • 1 ½ msk Worcestershire sósa
  • 2 nautateningar
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 ½ msk Dijon sinnep
  • 1 ½ bolli bjór (ég notaði Tuborg Classic)
  • ½ bolli nautasoð
  • ¼ bolli púðursykur
  • 3 bollar ferskrifinn cheddar ostur + meira til þess að setja ofan á borgarana
  • 6 hamborgarabrauð

Steikið beikon á pönnu á miðlungsháum hita þar til stökkt en samt enn beygjanlegt. Fjarlægið beikonið af pönnunni en haldið 1 msk af fitunni eftir á henni. Steikið laukinn og hvítlaukinn á sömu pönnu þar til hann hefur mýkst. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið þar til það hefur brúnast vel. Þegar hakkið er orðið mátulega brúnt er tómatsósu, tómatpúrru, nautateningum, Worcestershire sósu, Dijon sinnepi, nautasoði, púðursykri, paprikudufti og bjór bætt á pönnuna. Blandið öllu vel saman og látið malla í 30 mínútur, eða þar til blandan hefur þykknað mikið og vökvinn er að mestu horfinn. Bætið cheddarosti og strimluðu beikoni saman við og látið aðeins malla þar til osturinn hefur bráðnað.

Hitið ofn í 175° og smyrjið eldfast mót sem rúmar 6 hamborgarabrauð. Setjið neðri helmingana af hamborgarabrauðunum í botninn á mótinu og dreifið nautahakksblöndunni yfir brauðin. Steikið meira beikon á sömu pönnu og nautahakkið var á og raðið yfir borgarana. Raðið cheddarostsneiðum eftir smekk yfir beikonið og endið á að setja lokin af hamborgarabrauðunum yfir ostinn.

Gljái (uppskrift frá Ljúfmeti):

  • ½ bolli smjör
  • 1 msk sinnep
  • 2 msk púðursykur
  • 1 msk Worcestershire sósa
  • 1 msk sesamfræ

Setjið allt saman í lítinn pott og hitið þar til suðan kemur upp og allt hefur blandast vel saman. Hellið gljáanum yfir borgarana og eldið í ofni í 25 mínútur.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir