Fyrir skömmu útbjó ég rétti sem er upplagt að njóta yfir HM fyrir matarhornið hjá Morgunblaðinu. Ísland komst ekki áfram í þetta sinn en mér fannst nú samt upplagt að gefa uppskriftirnar af þessum réttum hér á blogginu svo fólk geti notið þeirra þrátt fyrir að þátttöku Íslands sé lokið. Einn rétturinn sem ég útbjó eru þessar brjálæðislega góðu tortilla rúllur með döðlum, beikoni, graslauk, rjómaosti, skinku og cheddar osti sem eru bornar fram með sweet chili sósu. Þetta er sturlað gott snarl sem er upplagt að bjóða uppá þegar eitthvað skemmtilegt er á skjánum og jafnvel sem forrétt í matarboðum. Já eða bara ef mann langar til þess að gera vel við sig og hafa það sérlega notalegt.
Tortilla rúllur með döðlum:
- 4 stórar tortillakökur
- Silkiskorin skinka eftir smekk
- 200 g rjómaostur með svörtum pipar
- 4 döðlur, saxaðar
- 4 sneiðar beikon, steikt þar til mjög stökkt og hakkað niður
- 2 handfylli rifinn cheddar ostur
- 1 handfylli smátt saxaður graslaukur
- Sweet chili sósa til að bera fram með
Blandið saman rjómaosti, döðlum, beikoni, cheddarosti og graslauk. Smyrjið tortillakökur með þessu og dreifið silkiskorinni skinku eftir smekk yfir. Rúllið kökunum upp og skerið í passlega bita. Látið standa í ísskáp í ca. klukkustund áður en borið fram með sweet chili sósu.
