Kung Pao kjúklingur

Við á þessu heimili elskum klístraðan, bragðsterkan asískan mat og hann verður oftar en ekki fyrir valinu hjá okkur þegar við viljum hafa það sérlega notalegt. Þessi Kung Pao kjúklingur, sem ég sá á Pinterest einhvern tímann, var á borðum hjá okkur í haust og okkur þótti hann svo svakalega góður að ég er búin að elda hann þó nokkrum sinnum síðan og hann er alltaf kláraður upp til agna. Ég veit að hráefnalistinn er svolítið langur og að rétturinn virðist afskaplegt maus að setja saman – ég hélt það svo sannarlega þegar ég sá uppskriftina fyrir löngu og frestaði því alltaf að prófa hana sökum þess – en það tekur enga stund að setja réttinn saman og koma honum á matarborðið. Ég vil benda ykkur á að freistast ekki til þess að nota venjulega sojasósu í réttinn, ég gerði það einu sinni þegar low sodium sojasósan reyndist vera búin og rétturinn varð aðeins of saltur fyrir vikið. Ég er ein af þeim sem salta salt, svo ef mér finnst saltinu ofaukið, þá er það svo sannarlega.

Kung Pao kjúklingur

  • 700 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
  • 2 msk kornsterkja
  • 4 msk low sodium sojasósa
  • 2 msk þurrt sherry eða kínverskt shaoxing vín
  • 2 tsk olía (ekki ólífuolía)

Blandið öllu saman í skál og látið marinerast í 10-20 mínútur.

Kung Pao sósa:

  • ¼ bolli low sodium sojasósa
  • 2 tsk dökk sojasósa (fæst í asískum búðum)
  • ½ bolli kjúklingasoð
  • 2 msk kínverskt svart edik (Chinese black vinegar)
  • 2 msk þurrt sherry eða kínverskt shaoxing vín
  • 2 tsk hoisin sósa
  • 1 msk púðursykur
  • 1 msk kornsterkja

Blandið öllu saman í skál og setjið til hliðar.

Stir fry:

  • 4 msk bragðdauf olía
  • 6 stk þurrkaður kínverskur chili pipar (fæst í asískum búðum), skorinn í þrennt
  • 1 græn paprika, skorin í munnbita
  • 1 rauð paprika, skorin í munnbita
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 6 vorlaukar, skornir í 2 cm bita
  • 1/3 bolli salthnetur
  • 1 tsk sesamfræ

Hitið 2 msk af olíu á pönnu þar til hún er orðin mjög heit. Steikið kjúklinginn á miðlungsháum hita þar til hann er eldaður í gegn. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Bætið 2 msk af olíu á sömu pönnu og steikið paprikur, hvítlauk, kínverskan chili pipar og vorlauk í 4 mínútur. Hellið þá sósunni á pönnuna. Þegar sósan hefur þykknað aðeins er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Blandið öllu mjög vel saman. Bætið að lokum vorlauk, salthnetum og sesamfræjum á pönnuna. Berið strax fram með hrísgrjónum og sojasósu.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir