Bestu pizzasnúðar í heimi

Þessir pizzasnúðar eru þeir allra bestu í heimi, þó ég segi sjálf frá. Ég hef alltaf verið sólgin í pizzasnúða og finnst þeir flestir frábærir en þessir eru þeir lang, lang, langbestu sem ég hef smakkað. Deigið er svakalega mjúkt og gott (uppskrift frá Evu Laufeyju) og fyllingin, sem samanstendur af hökkuðu pepperoni, ítölskum smurosti, rifnum mexíkóosti, rifnum cheddar osti, heitu pizzakryddi og pizzasósu setur alveg punktinn yfir i-ið. Fyllingin er svo bragðmikil og bragðgóð að það bara nær engri átt. Þið bara verðið að prófa!

Pizzasnúðar með ítölskum smurosti og mexíkóosti:

  • 900 g hveiti
  • 60 g sykur
  • ½ tsk salt
  • 100 g smjör, brætt
  • ½ líter mjólk
  • 1 pakki þurrger

Hitið mjólkina í potti á vægum hita. Bætið smjörinu út í og látið það bráðna saman við mjólkina. Bætið þurrgerinu og sykri í pottinn, takið hann af hitanum og látið standa í nokkrar mínútur. Blandið hveiti og salti saman í skál og bætið mjólkurblöndunni saman við. Hnoðið í deig og látið hefast undir viskastykki í 50 mínútur. Þá er deigið hnoðað aftur og látið standa í 30 mínútur til viðbótar.

Fylling:

  • 1 box ítalskur smurostur
  • 1 mexíkóstur, rifinn
  • 1 bréf pepperoni, hakkað
  • 200 g rifinn ostur + meira til að setja yfir snúðana
  • 1 msk heitt pizzakrydd
  • ½ msk pizzakrydd frá Prima
  • 4 msk pizzasósa

Blandið öllu vel saman, helst í hrærivél. Þegar deigið er tilbúið er því skipt í tvennt og hvor hluti flattur út í ferning. Helmingur fyllingarninnar er settur á hvorn deigferning fyrir sig og smurt jafnt yfir. Deiginu er rúllað upp og skorið í sneiðar. Raðið sneiðunum á bökunarplötur sem klæddar hafa verið með bökunarpappír. Stráið smá rifnum osti yfir sneiðarnar og kryddið jafnvel með smá pizzakryddi. Bakið við 200° í 10-12 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og snúðarnir komnir með fallegan lit.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir