Stórgott og matarmikið Chili Con Carne

Í sumar eldaði ég alveg hreint brjálæðislega gott Chili Con Carne sem dugði okkur í margar máltíðir. Uppskriftin er mjög drjúg og við erum bara tvö í heimili, þannig að ég gat nýtt afgangana nokkuð vel. Við borðuðum réttinn í kvöldmat og í hádegismat deginum eftir og restinni af réttinum skipti ég niður í poka og frysti. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af Chili Con Carne en hef aldrei fundið hina einu réttu uppskrift, mér hafa alltaf þótt þær eitthvað of eða van. Ég datt niður á uppskrift sem mér leist nokkuð vel á hjá Sabrinu Snyder sem heldur úti síðunni Dinner, Then Dessert en gerði þó nokkrar breytingar til þess að aðlaga réttinn að mínum smekk. Útkoman var klikkgóð og ég sá fyrir mér að nota afgangana í vefjur eða pizzur, sem varð síðar raunin. Það er ómetanlegt að vita af svona fjársjóði í frystinum og þurfa bara að taka hann út um morguninn og nýta hann svo í eitthvað fljótlegt um kvöldið.

Eitt kvöldið kom ég þreytt heim úr vinnu og lét duga að smyrja tortillur með rjómaosti, dreifa Chili Con Carne yfir og setja cheddarost yfir kjötblönduna. Þetta steikti ég svo á pönnu og bar fram með taco sósu og chili sósu frá Santa Maria og muldi svart Doritos yfir. Alveg hreint dásamlega gott og fljótlegt.

Eitt föstudagskvöldið fór restin af réttinum á pizzu. Ég smurði pizzabotn með pizzasósu, raðaði kjötblöndunni yfir og gratíneraði með helling af osti. Bar pizzuna svo fram með chili sósu frá Santa Maria, smátt söxuðum rauðlauk og steinselju og muldu svörtu Doritos. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað þetta var gott, þið verðið bara að prófa!

Chili Con Carne:

  • 2 msk grænmetisolía
  • 2 laukar, skornir í bita
  • 1 græn paprika, skorin í bita
  • 3 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 2 stykki ferskur rauður chili, skorinn smátt
  • 900 g nautahakk
  • 1 tsk salt
  • ¼ bolli chili duft
  • 1 msk cumin (ekki kúmen)
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 msk púðursykur
  • 800 g fínhakkaðir tómatar í dós (tvær dósir)
  • 400 g nýrnabaunir
  • 170 g tómatpúrra
  • 2 bollar nautasoð
  • 1 nautateningur
  • 6 bitar ósætt dökkt súkkulaði (amk 70%)

Hitið grænmetisolíu í rúmgóðum potti á miðlungsháum hita. Steikið lauk og papriku þangað til laukurinn er glær, það tekur um 6-8 mínútur. Bætið þá hvítlauk og ferskum chili í pottinn og blandið vel saman. Steikið í 1 mínútu og bætið þá nautahakkinu í pottinn og steikið í 8 mínútur. Bætið salti, chili dufti, púðursykri, papriku og cumin í pottinn og blandið öllu vel saman og steikið í nokkrar mínútur. Setjið tómata, tómatpúrru og nýrnabaunir í pottinn og blandið öllu mjög vel saman. Látið þetta malla í smástund og bætið nautatening, súkkulaði og nautasoði í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann á lágan og látið þetta malla í klukkutíma en hrærið í þessu á 15 mínútna fresti. Berið fram með því sem hugurinn girnist en ég mæli með hrísgrjónum, nachos flögum og sýrðum rjóma.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir