Hægeldaður BBQ kjúklingur

Þessi hægeldaði BBQ kjúklingur er algjört lostæti, þó ég segi sjálf frá. Svo brjálæðislega góður að við erum búin að hafa hann tvisvar í matinn á stuttum tíma og í bæði skiptin var allt klárað upp til agna. Uppskriftina fékk ég frá syni sambýlismanns míns sem fékk hann frá mömmu sinni heitinni fyrir mörgum árum síðan. Ég gerði töluverðar breytingar á uppskriftinni, t.d. var kjúklingurinn í upprunalegu uppskriftinni ekki hægeldaður og ég bætti við beikoni, lauk og nautatening og breytti sósuhlutföllunum. Útkoman var svo góð að ég hugsa að ég muni halda mig við uppskriftina svona í framtíðinni, þó hún sé tímafrekari og krefjist meira vinnuframlags heldur en upprunalega uppskriftin.

Hægeldaður BBQ kjúklingur:

  • 1.5 kg kjúklingabringur
  • Bezt á flezt kryddblanda
  • 200 g beikon, strimlað
  • Smjör til steikingar
  • 1-2 laukar, skornir í þunna báta
  • 2.5 dl BBQ sósa
  • 2.5 dl apríkósu marmelaði
  • 2.5 dl rjómi
  • 2.5 dl púðursykur
  • 1 nautateningur
  • 1.5 dl sojasósa

Hitið ofn í 110°. Steikið strimlað beikon á pönnu þangað til það er mátulega stökkt. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Hellið fitunni af pönnunni og þurrkið hana lítillega með eldhúspappír en ekki skola eða þvo hana. Skerið kjúklingabringurnar í þrennt á lengdina og nuddið Bezt á flest kryddblöndu á allar hliðar á þeim. Bræðið smjör á sömu pönnu og beikonið var steikt á. Þegar smjörið er orðið mjög heitt eru kjúklingabringurnar brúnaðar á öllum hliðum og raðað í eldfast mót (eða ofnpott með loki ef þið eigið slíkan). Raðið beikoninu og lauknum yfir kjúklinginn. Setjið marmelaði, BBQ sósu, rjóma, púðursykur, nautatening og sojasósu í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna malla þar til nautateningurinn er bráðnaður. Hellið þessu yfir kjúklinginn og setjið álpappír yfir eldfasta mótið (eða lokið yfir ofnpottinn) og setjið í ofn í 2 klukkutíma. Berið fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir