Núna þegar jól og áramót eru gengin yfir finnst mér alveg upplagt að gefa þessa uppskrift af tælenskum kasjúhnetu kjúklingi sem er brjálæðislega góður og alls ekki jólalegur og passar því vel eftir allan hátíðamatinn sem margir eru orðnir þreyttir á. Ég fann þessa uppskrift á Pinterest og setti hana á vikumatseðilinn og við urðum sko heldur betur ekki fyrir vonbrigðum. Rétturinn reyndist alveg brjálæðislega góður og sambýlingurinn sagðist gefa honum 10/10 í einkunn. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum á stuttum tíma og hann er alltaf kláraður upp til agna. Klikkgott og bráðnauðsynlegt að prófa!
Tælenskur kasjúhnetu kjúklingur (lítillega breytt uppskrift frá Chili to Choc):
- 500 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
- 1/2 tsk salt
- 2 msk sojasósa
- 3 msk kornsterkja
- 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
- 1/2 msk engiferduft
- 1-2 stk ferskir rauðir chili, skornir í sneiðar
- 6 stk þurrkaður kínverskur chili pipar, skorinn í tvennt (fæst í asískum búðum)
- Hýði af hálfri sítrónu
- 1 búnt vorlaukur, hvíti og ljósgræni parturinn skornir í 1 cm bita og græni parturinn í 2 cm
- 1 gulur laukur, skorinn í þykkar sneiðar
- 3 msk bragðdauf olía
- 3/4 bolli ristaðar og saltaðar kasjúhnetur
Sósan:
- 1 msk kornsterkja
- 1 1/2 msk ostrusósa
- 2 tsk dökk sojasósa (fæst í asískum búðum)
- 1 msk fiskisósa
- 1 msk eplaedik
- 3 msk púðursykur
- 1 bolli kjúklingasoð
Setjið kjúklingabringurnar (skornar í munnbita), 3 msk kornsterkju, 1/2 tsk salt og 2 msk sojasósu saman í skál og blandið öllu vel saman. Látið standa í 15 mínútur. Á meðan kjúklingurinn marinerast er annað undirbúið. Blandið öllum sósu hráefnunum saman í lítilli skál og setjið til hliðar. Setjið hvítlauk, ferskan chili pipar, þurrkaðan chili pipar, engifer duft, hvíta og ljósgræna partinn af vorlauknum, hýði af hálfri sítrónu og lauk saman í skál og setjið til hliðar. Setjið dökkgræna partinn af vorlauknum og kasjúhnetur saman í skál og setjið til hliðar. Hitið 3 msk af olíu á rúmgóðri pönnu. Þegar olían er orðin mjög heit er kjúklingurinn settur á pönnuna og steiktur þar til eldaður í gegn og kominn með fallega steikingarhúð. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Bætið smá meiri olíu á pönnuna ef ykkur finnst þurfa og steikið allt grænmetið saman á pönnunni í nokkrar mínútur. Bætið næst kjúklingnum og sósunni á pönnuna og blandið öllu mjög vel saman. Lækkið hitann á lágan og látið þetta malla í 5 mínútur eða þar til öll edikslykt er horfin. Slökkvið undir pönnunni og setjið dökkgræna partinn af vorlauknum og kasjúhneturnar á pönnuna og blandið þessu öllu mjög vel saman. Berið réttinn strax fram með hrísgrjónum og sojasósu.