Rocky Road með Lindubuffi

Ég er ekki mikið fyrir að baka fyrir jólin og geri það satt að segja eiginlega ekki. Ég baka oftast sörur (í ár lét ég duga að kaupa þær) og útbý Rocky Road og heimagert snickers sem við njótum yfir aðventuna. Rocky Road hefur verið ómissandi yfir aðventuna og um jólin hjá mér árum saman og okkur þykir það svo gott að ég enda yfirleitt á að þurfa að gera annan umgang til að eiga yfir jólin. Ég er ekki fyrir konfekt en verð að eiga Rocky Road yfir aðventu og jól, enda er um óendanlega gott nammi að ræða.

Það gerðist svo fyrir tveimur árum að ég fékk sturlaða löngun í að útbúa Rocky Road en átti ekki öll hráefnin í það. Planið hafði verið að gera Rocky Road næstu helgi en ég gat ekki beðið og vissi að ég yrði ekki í rónni fyrr en þetta dásamlega nammi væri komið í ísskápinn minn. Gallinn var sá að það vantaði upp á hráefnin en ég nennti ómögulega út í búð aftur (nennir því einhver á köldum desember laugardegi?) og ákvað að reyna að redda mér með öðrum hráefnum. Ég endaði á að nota suðu- og rjómasúkkulaði í jöfnum hlutföllum og skipta sykurpúðunum út fyrir Lindubuff, þar sem ég átti kassa sem var búið að borða tvö stykki úr. Útkoman var alveg brjálæðislega góð og ég geri núna alltaf báðar gerðirnar af Rocky Road. Það er jú bara ekki hægt að eiga nóg af þessu yndislega nammi sem lýsir upp skammdegið.

Rocky Road með Lindubuffi:

  • 300 g suðusúkkulaði
  • 300 g rjómasúkkulaði
  • 2 pokar Dumle karamellur, skornar í tvennt
  • 140 g salthnetur
  • 1 kassi Lindubuff, skorin í fernt (mínus tvö buff sem er upplagt að borða á meðan þetta er útbúið)
  • 100 g pistasíuhnetukjarnar

Klæðið skúffukökuform með bökunarpappír. Bræðið suðu- og rjómasúkkulaði saman yfir vatnsbaði og látið kólna lítillega þegar það er alveg brætt. Setjið Dumle karamellur, salthnetur og Lindubuff saman í skál. Hellið brædda súkkulaðinu í skálina og blandið öllu mjög vel saman. Dreifið blöndunni jafnt í skúffukökuformið og kælið í ísskáp í a.m.k tvær klukkustundir. Skerið í passlega bita og njótið í botn.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir