Sturlaðar ostafylltar tartalettur

Þó ég segi sjálf frá, þá eru þessar ostafylltu tartalettur með karamelluseruðum lauk, hvítlauk, sveppum, piparosti og gullosti gjörsamlega sturlaðar. Ég hef árum saman gert tartalettur eftir uppskrift frá Evu Laufeyju og borið fram yfir Kryddsíldinni á gamlársdag (og ber þær fram með bjór og mimosum) og geri alltaf tartalettur úr afgangs hamborgarhrygg á jólunum og finnst það alltaf jafn brjálæðislega gott. Stundum geri ég líka tartalettur í léttan kvöldverð um helgar og við borðum þær þá í sjónvarpssófanum. Um daginn átti ég afgangs piparost og gullost sem ég vildi losna við úr ísskápnum og ákvað að henda í tartalettur. Ég endaði á að karamellusera lauk og smjörsteikja sveppi og gera sósu úr ostunum. Útkoman voru bestu ostafylltu tartalettur sem ég hef smakkað á ævinni og þessar verða klárlega á borðum yfir Kryddsíldinni núna í ár. Ég er búin að gera þessar tartalettur nokkrum sinnum á stuttum tíma og við bara fáum ekki nóg af þeim. Maðurinn minn er almennt ekki sérlega hrifinn af tartalettum en hann er alveg sólginn í þessar. Prófið!

Ostafylltar tartalettur

  • 20-25 tartalettur
  • 1 gullostur, rifinn
  • 1 piparostur, rifinn
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 3 laukar, skornir þunnt
  • 3 msk smjör
  • 1 msk ólífuolía
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 1 lítill sóló hvítlaukur, fínhakkaður
  • Salt
  • Nýmalaður svartur pipar
  • 1.5 msk púðursykur
  • 1.5 kjúklingateningar
  • 1.5 msk sojasósa
  • 1.5 msk rifsberjahlaup

Bræðið 2 msk smjör og 1 msk ólífuolíu í litlum potti á tiltölulega vægum hita. Þegar smjörið er bráðnað og farið að malla aðeins er lauknum og salti eftir smekk bætt í pottinn. Látið þetta malla á vægum hita í klukkutíma en hrærið í lauknum á 10 mínútna fresti. Þegar klukkutími er liðinn er púðursykri, pipar og hvítlauk bætt í pottinn og öllu blandað mjög vel saman. Látið malla í 15 mínútur til viðbótar. Takið laukinn úr pottinum og setjið til hliðar. Bræðið 1 msk af smjöri í sama potti á miðlungsháum hita. Þegar smjörið er bráðnað er sveppum bætt í pottinn og steiktir í 10 mínútur. Bætið lauknum aftur í pottinn, ásamt piparosti, gullosti, matreiðslurjóma, kjúklingatening, sojasósu og rifsberjahlaupi. Látið suðuna koma upp og hrærið vel í pottinum á meðan. Lækkið hitann og látið sósuna malla þar til ostarnir eru alveg bráðnaðir. Fyllið tartalettuskeljarnar með sósunni og bakið í ofni á 200° í 6-7 mínútur. Látið tartaletturnar kólna aðeins áður en þær eru bornar fram. Berið fram með rifsberjahlaupi.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir