Fyrir skömmu var ég með Thanksgiving veislu hérna heima og bjó til svo dásamlega góða saltkaramellu smáköku með súkkulaðibitum í steypujárnspönnu að það bara nær engri átt. Kakan er svo dásamlega bragðgóð og með blöndu af suðusúkkulaði, rjómasúkkulaði og hvítu súkkulaði verður hún gjörsamlega ómótstæðileg. Kakan er fullkominn eftirréttur þar sem það má græja hana með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp fram að bakstri. Þið bara verðið að prófa!
Saltkaramellu smákaka með súkkulaðibitum:
- 225 g smjör við stofuhita
- 2 egg + 1 eggjarauða
- 220 g púðursykur
- 220 g sykur
- 3 tsk vanillusykur
- 1 tsk matarsódi
- Mulið sjávarsalt eftir smekk (ég notaði 1/2 tsk í deigið og stráði svo yfir kökuna fyrir bakstur)
- 340 g hveiti
- 1 pakki Royal saltkaramellubúðingur
- 150 g suðusúkkulaðidropar
- 150 g rjómasúkkulaðidropar
- 75 g hvítir súkkulaðidropar
Hitið ofn í 180°. Smyrjið 24 cm steypujárnspönnu með PAM eða smjöri. Þeytið saman smjör, púðursykur og sykur þar til ljóst og létt. Bætið eggjunum, vanillusykri, salti og matarsóda saman við og þeytið áfram. Bætið saltkaramellubúðingsduftinu saman við og blandið mjög vel saman. Setjið hveitið í skálina og blandið öllu mjög vel saman. Bætið að lokum súkkulaðidropunum saman við. Þrýstið deiginu jafnt í steypujárnspönnuna. Bakið í 25 mínútur. Látið kólna í 10-15 mínútur áður en kakan er borin fram.
*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay