Indverskt vindaloo með nautakjöti

Við á þessu heimili gjörsamlega dýrkum indverskan mat og við höfum hann oft í matinn. Þegar ég elda hann heima, þá elda ég hann alltaf frá grunni. Það er sérlega gaman að elda indverskan mat frá grunni því hann er svo miklu betri heldur en sá sem er gerður úr sósum úr krukkum og húsið fyllist af yndislegri lykt. Oftast verður tikka masala fyrir valinu en þegar ég sá uppskrift af vindaloo með nautakjöti á Pinterest varð ég mjög spennt og langaði strax að prófa. Rétturinn olli ekki vonbrigðum, hann var bæði stórgóður og einfaldur í gerð.

Indverskt vindaloo með nautakjöti:

  • 1 kg nautagúllas
  • 2 tsk nýmulinn svartur pipar
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk hvítur pipar
  • 3-4 msk bragðdauf olía
  • 1 laukur, skorinn smátt
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 2 tsk garam masala
  • 2 tsk cumin
  • 1 tsk paprika
  • 1 tsk túrmerik
  • 1⁄2 tsk sinnepsduft
  • 1 tsk cayenne pipar
  • 1⁄2 tsk engifer
  • 1⁄2 tsk kanill
  • 70 g tómatpúrra
  • 1⁄4 bolli eplaedik
  • 1.5 bolli nautasoð
  • 1 nautateningur

Setjið kjötið, salt, pipar og hvítan pipar í rúmgóða skál og blandið öllu vel saman. Hitið olíu í rúmgóðum potti (eða stórri pönnu) þar til mjög heit. Brúnið nautakjötið á öllum hliðum og færið yfir á disk (ásamt öllum safa af kjötinu). Lækkið hitann á miðlungslágan og steikið laukinn í 15 mínútur. Hrærið reglulega í honum svo hann brenni ekki. Bætið hvítlauk næst í pottinn og steikið í 1 mínútu. Bætið kryddunum í pottinn og steikið í 1 mínútu til viðbótar. Setjið tómatpúrru næst saman við og blandið öllu mjög vel saman. Hellið eplaediki yfir þetta og látið sjóða saman í 2-3 mínútur. Skrapið allt sem gæti verið fast á botni pottsins laust með sleif. Bætið nautasoðinu næst í pottinn og látið malla í nokkrar mínútur. Bætið kjötinu (ásamt öllum safa af því) og nautatening í pottinn og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í klukkutíma en hrærið reglulega í réttinum. Berið fram með hrísgrjónum, naan brauði, smátt saxaðri steinselju og grískri jógúrt.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir