Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi

Ég hef haldið upp á Thanksgiving síðan ég bjó í Bandaríkjunum og gjörsamlega elska þessa hátíð. Síðan ég flutti aftur heim hef ég verið heppin með að geta haldið uppá daginn á daginn sjálfan, en þar sem Thanksgiving er ekki frídagur á Íslandi, þá þurfti ég að halda upp á daginn á öðrum degi núna í ár. Sem er kannski lán í óláni, því þá eru þessar dásamlegu uppskriftir komnar tímanlega á veraldarvefinn. Ég eyddi öllum deginum í eldhúsinu og það er óhætt að segja að það hafi verið ómaksins virði. Máltíðin var gjörsamlega dásamleg og við vorum afvelta eftir matinn. Ég bar kalkúninn fram með dásamlegri sveppasósu (sem steingleymdist að mynda almennilega!), sætkartöflumús með pekanhnetukrönsi sem er ómissandi með kalkúni og verður að hafa með, snickerssalati, smjörsoðnu maís og fyllingu með beikoni og döðlum. Þvílík veisla!

Kalkúnaveisla:

  • Kalkúnaskip, þyngd eftir fjölda matargesta
  • 300 g beikon í sneiðum
  • Bezt á kalkúninn kryddblanda

Hitið ofn í 180°. Klæðið bökunarplötu með álpappír eða bökunarpappír og komið kalkúnaskipinu fyrir á plötunni. Nuddið Bezt á kalkúninn kryddblöndu vel yfir kalkúnaskipið og þekið það svo með beikonsneiðum. Passið að láta ekkert sjást í kjötið. Setjið í ofn í 2-3 klukkutíma, fer eftir þyngd kalkúnaskipsins (ég var með 3 kg og hafði hann í 2.5 klst í ofninum).

Fylling með beikoni og döðlum:

  • 15 franskbrauðsneiðar, skornar í teninga
  • 200 g beikon, strimlað
  • 2 laukar, skornir þunnt
  • Smá smjör
  • 10 döðlur, skornar smátt
  • 1 msk kalkúnakraftur
  • 1.5 tsk Bezt á kalkúninn kryddblanda
  • 2 msk kalkúnakrydd
  • 1/2 tsk hvítur pipar
  • Salt og pipar
  • 2 egg, upphrærð
  • 2.5 dl nautasoð úr fernu

Steikið beikonið á pönnu þar til stökkt. Takið beikonið af pönnunni og setjið til hliðar. Bræðið smjör á pönnunni og steikið laukinn í 8 mínútur. Bætið þá döðlum og öllum kryddum á pönnuna og blandið öllu vel saman. Setjið brauðteningana og beikonið á pönnuna og blandið öllu mjög vel saman og steikið í 3-4 mínútur. Bætið eggjum og nautasoði saman við og blandið öllu vel saman. Færið yfir í eldfast mót. Þegar kalkúnninn er tilbúinn er fyllingin sett í ofninn í 20-30 mínútur.

Villisveppasósa:

  • 5 skarlottulaukar, skornir smátt
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 1 bréf Kantarell&Sjampinjongsaus frá TORO
  • Villisveppaostur, rifinn
  • 2.5 dl nautasoð
  • 4 dl rjómi
  • 1 sveppateningur
  • 1 nautateningur
  • 3 msk rifsberjahlaup
  • Hvítur pipar eftir smekk
  • 1.5 tsk Bezt á kalkúninn kryddblanda
  • Smjör

Bræðið smjör í potti. Þegar smjörið er byrjað að „búbbla“ er skarlottulauk og sveppum bætt í pottinn og steikt í 8 mínútur. Bætið næst bréfi af Kantarell&Sjampinjongsaus frá TORO og rifnum villisveppaosti saman við. Hellið nautasoðinu saman við í mjórri bunu og hrærið vel í þessu á meðan. Bætið rjóma, sveppatening og nautatening saman við og látið suðuna koma upp. Bætið rifsberjahlaupi, Bezt á kalkúninn og hvítum pipar eftir smekk saman við og smakkið til. Látið sósuna malla á vægum hita í 5 mínútur áður en hún er borin fram.

Eftirrétturinn var himneskur. Uppskrift er væntanleg.

*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir