Um daginn var ég búin að ákveða að elda kjúkling þegar ég kæmi heim úr vinnunni en fékk skyndilega löngun í eitthvað svakalega djúsí. Mig langaði í pizzu en samt ekki ef það meikar eitthvað sense? Niðurstaðan var sú að ég keypti upprúllað pizzadeig og penslaði það með smjöri og hvítlauk og raðaði svo pepperoni yfir og gratíneraði með osti. Herlegheitin bar ég fram með piparostasósu og það er óhætt að segja að þetta hafi slegið í gegn. Ég setti mynd af stöngunum í story á Instagram og ég fékk svo margar fyrirspurnir að ég ákvað að henda inn uppskriftinni (ef uppskrift mætti kalla). Þið bara verðið að prófa!
Hvítlauksbrauðstangir með pepperoni og parmesan:
- 1 rúlla pizzadeig
- 1 poki pizzaostur
- Parmesan ostur eftir smekk
- Smjör eftir smekk, brætt (ég notaði ca. 4 msk)
- Hvítlaukur eftir smekk, pressaður (ég notaði 1 sóló hvítlauk)
- Ferskrifinn parmesan ostur eftir smekk
- Krydd eftir smekk (ég notaði salt, pipar, þurrkað oregano og pizzakrydd frá Prima)
- Pepperoni eftir smekk, skorið í strimla
Hitið ofn í 200°. Rúllið pizzadeiginu út á plötu og penslið með smjöri og hvítlauk. Rífið ferskan parmesan ost yfir smjörið og kryddið eftir smekk. Setjið helminginn af pizzaostinum yfir smjörið og raðið svo pepperoni yfir ostinn. Rífið meiri ferskan parmesan yfir pepperoniíð og dreifið restinni af pizzaostinum yfir. Bætið við kryddum ef vill og bakið í ofni þar til osturinn er kominn með fallegan lit og pepperoniíð orðið stökkt. Berið fram með piparostasósu og njótið í botn.