Rjómapasta með pylsum og beikoni

Í vetur birti ég þessa uppskrift af pyslupasta með beikoni og smurosti sem kemur úr smiðju Laufeyjar vinkonu minnar. Það gerðist svo um daginn að ég fékk akút löngun í þetta pasta en ákvað að breyta hráefnunum aðeins. Ég bætti við gulri papriku, meiri púrrulauk, arómati og Campbell’s sveppasúpu og breytti hlutföllunum lítillega. Útkoman var brjálæðislega bragðgott pasta sem hefur átt hug minn allan síðan ég eldaði það. Ég bauð uppá réttinn í matarboði og hann gjörsamlega hvarf ofan í börn sem fullorðna og allir dásömuðu réttinn við hvern bita. Það var smá afgangur eftir sem ég tók með mér í nesti deginum eftir og ég hlakkaði allan morguninn til þess að komast í pastað. Endilega prófið!

Rjómapasta með pylsum og beikoni:

  • 500 g pasta
  • 10 stykki SS pylsur, skornar í bita
  • 350 g beikon, strimlað
  • 1 stór púrrulaukur, strimlaður
  • 1 gul paprika, strimluð
  • 1 rauð paprika, strimluð
  • 1 dós beikonsmurostur
  • 1 dós Campbell’s sveppasúpa
  • 300 ml kjúklingasoð
  • 200 ml rjómi
  • 2 kjúklingateningar
  • Arómat eftir smekk
  • Nýmulinn svartur pipar eftir smekk

Hitið smá ólífuolíu á mjög rúmgóðri pönnu. Steikið beikonið þangað til það er passlega stökkt. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið pylsurnar á sömu pönnu þar til þær eru komnar með fallega húð. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið púrrulauk og paprikur á pönnunni þar til púrrulaukurinn er orðinn klístraður og paprikurnar mjúkar. Setjið beikonið og pylsurnar á pönnuna og blandið öllu vel saman. Steikið þetta í smástund til viðbótar og bætið næst beikonsmurosti, Campbell’s sveppasúpu, kjúklingasoði, rjóma og kjúklingateningum á pönnuna. Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann aðeins. Látið þetta malla þar til osturinn og teningarnir hafa bráðnað og sósan orðin slétt. Smakkið til með arómati og nýmuldum svörtum pipar. Látið sósuna malla á vægum hita (ég nota stillingu 3 af 9) á meðan pasta er soðið upp úr söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af því og pastað sett á pönnuna. Blandið öllu vel saman og látið malla í 2-3 mínútur. Berið strax fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir