Ég hef eldað milljón dollara spaghettí eftir uppskrift frá All Recipes árum saman og er alltaf jafn hrifin af þessum rétti. Hann er einstaklega bragðgóður, gaman að elda hann og hann geymist vel, svo það er upplagt að taka afganga í nesti eða hafa í kvöldmat deginum eftir. Að vera í vinnunni og vita af svona dásamlegri máltíð tilbúinni heima og þurfa ekkert að gera nema hita matinn upp og leggja á borð er ólýsanlega góð tilfinning, sérstaklega á löngum dögum. Fyrir ekki svo löngu, þá var ég að gera tiltekt í ísskápnum og fannst upplagt að græja milljón dollara spaghettí og bæta við nokkrum hráefnum sem ég vildi losna við úr ísskápnum. Ég bætti við hvítlauk, lauk, beikoni og púrrulaukssúpudufti og útkoman var gjörsamlega æðisleg og ég hef eldað réttinn svona nokkrum sinnum síðan, alltaf við mjög mikla lukku. Börn sem fullorðnir háma þetta í sig og í öll þau skipti sem ég bauð gestum uppá þennan rétt, þá var enginn afgangur. Svo góður er rétturinn. Prófið!
Milljón dollara spaghettí með beikoni og púrrulaukssúpu:
- 500 g nautahakk
- 200 g beikon, strimlað
- 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
- 1 laukur, grófhakkaður
- 1 dós pastasósa
- 1 nautateningur
- Pizzakrydd frá Prima
- Salt og pipar
- 250 g spaghettí
- 250 g kotasæla
- 200 g rjómaostur
- 1 dós sýrður rjómi
- 1 pakki púrrulaukssúpa frá TORO
- Rifinn cheddarostur
- 100 g smjör í þunnum sneiðum
Hitið ofn í 180°. Steikið beikon á pönnu þangað til stökkt. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Steikið nautahakkið á sömu pönnu, bætið lauk og hvítlauk á pönnuna þegar hakkið er byrjað að brúnast. Þegar hakkið er fullsteikt er það kryddað með pizzakryddi, salti og pipar eftir smekk. Hellið pastasósu yfir nautahakkið og setjið nautatening og beikonið á pönnuna. Látið malla á vægum hita á meðan spaghettí er soðið eftir leiðbeiningum á pakka. Hærið saman kotasælu, rjómaosti, sýrðum rjóma og púrrulaukssúpudufti. Setjið 50 g smjör í sneiðum í botninn á eldföstu móti. Setjið helminginn af spaghettíinu yfir smjörið og breiðið kotasælublönduna yfir spgahettíið. Setjið hinn helminginn af spaghettíinu yfir kotasælubönduna. Setjið restina af smjörinu, í sneiðum yfir spaghettíið og raðið kjötsósunni jafnt yfir spaghettíið. Eldið í 30 mínútur. Takið þá réttinn úr ofninum, dreifið rifnum cheddarosti yfir réttinn og eldið áfram í 15 mínútur. Látið standa í nokkrar mínútur áður en rétturinn er borinn fram.



*Færslan er unnin í samstarfi við John Lindsay