S’mores smákaka með karamellu

Fyrir skömmu bjó ég til s’mores smákökur sem mér þóttu svo dásamlega góðar að þær hafa átt hug minn allan síðan. Mér datt seinna í hug að gera stóra s’mores smáköku í steypujárnspönnu með karamellu á milli laga og útkoman var sturlað góður eftirréttur sem hvarf ofan í mannskapinn. Súkkulaðibitar, sykurpúðar, Digestive kex og karamella…. þarf að segja meira? Þið bara verðið að prófa!

S’mores súkkulaðibitakaka með karamellu:

  • 230 g smjör við stofuhita
  • 3/4 bolli sykur
  • 3/4 bolli púðursykur
  • 2 egg + 1 eggjarauða
  • 2 2/3 bolli hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 200 g grófhakkað suðusúkkulaði
  • 6 Degestive kexkökur, grófmuldar
  • 5 handfylli litlir sykurpúðar
  • 2 handfylli grófhakkað suðusúkkulaði
  • 150 g rjómakaramellur eða kúlur
  • 1/2 dl rjómi

Hitið ofn í 180°. Smyrjið 22 cm steypujárnspönnu og setjið til hliðar. Þeytið smjör í hrærivélaskál á háum hraða í 5 mínútur. Bætið sykri og púðursykri saman við og þeytið þar til blandan er létt og ljós. Bætið vanillusykri, eggjum og eggjarauðu saman við og blandið vel saman. Bætið matarsóda, hveiti og salti saman við. Blandið vel saman og bætið 200 g af grófhökkuðu suðusúkkulaði, 2 handfyllum af sykurpúðum og 2 muldum Digestive kexkökum saman við. Setjið karamellurnar og 1/2 af rjóma saman í pott og látið bráðna við vægan hita. Setjið helminginn af smákökudeiginu jafnt í steypujárnspönnuna. Raðið 1 handfylli af sykurpúðum, 2 muldum Digestive kökum, handfylli af grófhökkuðu suðusúkkulaði og karamellusósunni yfir smákökudeigið. Setjið hinn helminginn af deiginu yfir og lokið þannig fyllinguna inni. Bakið í 20 mínútur, takið þá pönnuna og út og dreifið 2 Digestive kexkökum, handfylli af sykurpúðum og handfylli af grófsöxuðu súðusúkkulaði yfir og bakið í 5 mínútur til viðbótar. Látið kólna í 10 mínútur áður en borið fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir