Ofnbakaður fiskur með gullosti

Eins og ég hef nefnt í fyrri færslum, þá var ég svo lánsöm að fá að gjöf allskonar vörur frá Gott í matinn. Þessi ofnbakaði fiskur með gullosti, hvítlauksosti, grænmeti og muldum kartöfluflögum er einn af réttunum sem ég setti saman úr ostum frá Gott í matinn og hann var svo brjálæðislega góður að ég er núna búin að elda hann fimm sinnum á nokkrum vikum, alltaf við mikla lukku. Gullostur og hvítlauksostur fara alveg stórvel saman í þessum rétti og muldu kartöfluflögurnar lyfta honum á enn hærra stig. Í tilefni af ostóber fannst mér upplagt að setja þessa uppskrift inn svo fleiri getið prófað.

Ofnbakaður fiskur með gullosti:

  • 1 kg fiskur, skorinn í passlega bita
  • 1 rauð paprika, skorin í strimla
  • 1 laukur, skorinn í strimla
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • Smjör til steikingar
  • Hvítlauksostur frá Gott í matinn, rifinn
  • Dala gullostur, rifinn
  • 2-3 handfylli rifinn ostur
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 1 grænmetisteningur
  • Nýmulinn svartur pipar
  • Kjöt &grillkrydd eftir smekk
  • Smá cayenne pipar
  • Kartöfluflögur með osti og lauk (ég notaði frá Maruud)

Hitið ofn í 180°. Raðið fiskinum í eldfast mót og kryddið kjöt&grill kryddi. Bræðið smjör í passlega stórum potti og steikið sveppina þar til þeir hafa minnkað örlítið í umfangi. Bætið lauknum í pottinn og steikið í smástund til viðbótar. Setjið næst fínhakkaðan hvítlauk í pottinn og blandið öllu vel saman. Að lokum fer paprikan í pottinn og allt steikt saman í 2 mínútur. Setjið ostana, matreiðslurjóma og grænmetistening í pottinn og látið malla þar til ostarnir eru bráðnaðir. Kryddið með cayenne pipar. Hellið sósunni yfir fiskinn. Eldið í ofni í 15-20 mínútur, takið þá fiskinn út og raðið kartöfluflögum yfir hann. Setjið aftur í ofninn í ca. 5 mínútur eða þar til kartöfluflögurnar eru komnar með fallegan lit. Berið fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir