Nautagúllas með Guinness bjór

Við á heimilinu erum mjög hrifin af gúllasi af öllum gerðum, sérstaklega þegar það er orðið haustlegt og hráslagalegt úti. Ég rak því upp stór augu þegar ég sá uppskriftir af írsku nautagúllasi með Guinness bjór og rauðvíni á Pinterest og vissi að þetta væri eitthvað sem ég bara yrði að prófa. Það dróst þó eitthvað á langinn, aðallega því nautagúllas er ekki sérlega sumarlegur matur, en um daginn lét ég loksins verða af því að prófa réttinn og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Ég gerði töluverðar breytingar á þeirri uppskrift sem mér leist best á og útkoman var eitt besta, ef ekki bara allra besta, nautagúllas sem við höfum smakkað. Ég bar gúllasið fram með nýbökuðu brauði og rauðvíni og ætlaði varla að geta náð mér niður úr hamingjukastinu sem fór af stað við matarborðið. Þið bara verðið að prófa!

Írskt nautagúllas með Guinness bjór og rauðvíni:

  • 1.2 kg nautagúllas
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 2 tsk nýmulinn svartur pipar
  • 2 gulir laukar, fínhakkaðir
  • 3 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
  • 4-5 gulrætur, afhýddar og skornar í sneiðar
  • 3 msk hveiti
  • 3 bollar nautasoð
  • 2 bollar vatn
  • 1 bolli Guinness bjór
  • 1 bolli rauðvín
  • 2 msk Worcestershire sósa
  • 2 nautateningar
  • 3 msk tómatpúrra
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 tsk þurrkað timian
  • 8 kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
  • 2 msk steinselja, hökkuð

Hitið ólífuolíu í rúmgóðum potti á mjög háum hita. Kryddið nautakjötið með salti og pipar. Brúnið nautakjötið í nokkrum skömmtum þegar olían er orðin mjög heit. Færið kjötið yfir á disk. Lækkið hitann í miðlungsháan. Ef potturinn er þurr, bætið þá smá ólífuolíu í hann. Setjið lauk, hvítlauk og gulrætur í pottinn og steikið í 5 mínútur. Bætið hveiti í pottinn og steikið í 1 mínútu. Setjið nautasoðið í pottinn í smáum skömmtum og hrærið vel á milli með sleif til þess að hveitið eyðist upp. Bætið vatni, Guinness bjór, rauðvíni, nautateningum, Worcestershire sósu og tómatpúrru í pottinn og blandið öllu vel saman. Bætið timijan, lárviðarlaufum og nautakjötinu (ásamt öllum safa af því) í pottinn. Lækkið hitann á miðlungslágan (ég notaði stillingu 3 af 9), setjið lok á pottinn og látið malla í 2 klukkustundir (eða lengur ef tíminn leyfir). Þegar 25 mínútur eru eftir af eldunartímanum er kartöflum bætt í pottinn og látnar sjóða án loks. Smakkið til með salti og pipar. Berið réttinn fram í skálum og stráið fínhakkaðri steinselju yfir hann. Berið fram með góðu brauði ef þess er óskað og njótið í botn.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir