Flestir kannast eflaust við hinn fræga rétt Marry Me Chicken. Ég hef eldað þann rétt margoft og alltaf við mikla lukku, enda er rétturinn stórgóður og nafninu er ekki ofaukið að mínu mati. Það var því ekki við öðru að búast en að ég yrði mjög spennt þegar ég sá uppskriftir af Marry Me Chicken pasta á Pinterest og ég fór strax í að finna uppskrift til þess að setja á vikumatseðilinn. Uppskriftirnar hinsvegar voru svo rosalega margar að ég vissi ekki alveg hvar ég átti að byrja, svo ég skoðaði örugglega 15 mismunandi uppskriftir og endaði á að setja saman mína eigin úr þeim með viðmiði af því sem ég átti í ísskápnum. Útkoman var æðislega góður, fljótlegur og einfaldur pastaréttur sem mun klárlega vera á borðum hér aftur og aftur. Við erum mikið fyrir sterkan mat svo ég var mjög örlát á nýmulinn svartan pipar og rauðar chili flögur en ef þú ert ekki mikið fyrir sterkt myndi ég helminga magnið af svörtum pipar og chili flögum og smakka til. Rétturinn er allur gerður á einni pönnu, sem flýtir mikið fyrir og sparar uppvaskið og því er þetta fullkominn föstudagsmatur í mínum bókum.
Marry Me kjúklingapasta á einni pönnu:
- 600 g kjúklingabringur, skornar í munnbita
- Bezt á flest kryddblanda
- 1 msk ólífuolía
- 2 sóló hvítlaukar, fínhakkaðir
- 170 g sólþurrkaðir tómatar, fínhakkaðir
- 1 tsk þurrkað oregano
- 2 tsk paprika
- 2 tsk nýmulinn svartur pipar
- 1 tsk rauðar chiliflögur
- 1 kjúklingateningur
- 650 ml grænmetissoð
- 250 g pasta (ósoðið)
- 150 ml rjómi
- 120 g spínat
- 50 g ferskrifinn parmesan ostur
Hitið ólífuolíu á pönnu á miðlungsháum hita. Þegar olían er orðin mjög heit er kjúklingurinn settur á pönnuna og kryddaður með Bezt á flest kryddblöndu. Steikið í 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er kominn með fallega steikingarhúð (kjúklingurinn þarf ekki að eldast í gegn á þessum tímapunkti). Lækkið hitann og bætið hvítlauk, sólþurrkuðum tómötum, oregano, papriku, rauðum chiliflögum og svörtum pipar á pönnuna. Steikið í 3-5 mínútur, eða þar til hvítlaukurinn er orðinn mjúkur. Bætið pasta, grænmetissoði og kjúklingatening á pönnuna og blandið öllu mjög vel saman. Setjið lok á pönnuna og látið malla í 15-20 mínútur. Hrærið í þessu nokkrum sinnum á þeim tíma. Lækkið hitann undir pönnunni á lægsta hita sem eldavélin býður upp á og bætið spínati og rjóma á pönnuna. Blandið öllu vel saman, slökkvið undir pönnunni og bætið parmesan saman við. Berið strax fram.