Pork Wellington og sinneps sveppasósa

Ég elska nautalund en er samt ekki sérlega hrifin af nautalund wellington, mér finnst það ágætt en yfirleitt ekki ómaksins virði að standa í að elda það. Ég rak því upp stór augu þegar systir mín sendi mér reel á Instagram þar sem svínalund var notuð í stað nautalundar í wellington uppskrift og var fljót að prófa þetta í eldhúsinu mínu. Útkoman var alveg æðisleg og ég mun klárlega elda þetta aftur og aftur. Svínalundina bar ég fram með léttri sinnepssveppasósu, soðnu smælki og ofnsteiktu spergilkáli. Þvílík veisla! Þið bara verðið að prófa.

Pork Wellington (Lítillega breytt uppskrift frá Self Proclamied Foodie):

  • 700 g svínalund
  • Salt, pipar og önnur krydd eftir smekk
  • 3 plötur frosið smjördeig, afþýddar og flattar út
  • 115 g hráskinka
  • 1 msk Dijon sinnep
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 1 egg, upphrært

Hitið ofn í 215°. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír. Kryddið svínalundina eftir smekk og setjið til hliðar. Rúllið út smjördeiginu og setjið á ofnplötuna. Raðið hráskinkunni yfir smjördeigið. Smyrjið hráskinkuna með Dijon sinnepi. Bræðið smjör og ólífuolíu saman á pönnu á háum hita og steikið sveppina og laukinn saman á pönnunni í 5-10 mínútur. Takið af pönnunni og setjið til hliðar. Brúnið svínalundina á öllum hliðum á sömu pönnu og setjið hana til hliðar. Dreifið sveppablöndunni yfir hráskinkuna og setjið næst svínalundina yfir sveppablönduna. Lokið deiginu utan um allt saman og penslið allt stykkið með upphrærðu eggi, látið sárið snúa niður. Eldið í 20-30 mínútur. Látið standa í 10 mínútur áður en lundin er skorin.

Sinnepssveppasósa:

  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 3 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 30 g smjör
  • 1 bréf sveppasósa frá TORO
  • 2 dl nautasoð
  • 3 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 1 sveppateningur
  • 1 msk Dijon sinnep
  • 1 kúfuð tsk kornótt sinnep
  • Nýmulinn svartur pipar

Steikið sveppi og skarlottulauk upp úr smjöri í potti við miðlungsháan hita í 5-7 mínútur. Bætið sveppasósudufti saman við og blandið vel saman. Setjið nautasoð, rjóma og mjólk í pottinn og látið suðuna koma upp. Bætið sveppatening og sinnepum saman við. Lækkið hitann og látið sósuna malla í 10 mínútur. Smakkið til með nýmuldum svörtum pipar.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir