Ég elska hversdagslegan heimilismat og kjötbollur af öllum gerðum eru í miklu uppáhaldi. Bornar fram með góðri rjómasósu, kartöflum eða kartöflumús og rifsberjahlaupi eru þær algjör herramannsmatur sem ég gæti lifað á. Þessar kjötbollur með beikoni eru æðislega góðar og sósan sem ég gerði með (uppskrift hér) smellpassaði við þær eins og hönd í hanska. Ég átti afgang af snickerssalati sem ég bar fram með og við borðuðum á okkur gat. Algjör veislumatur.
Kjötbollur með beikoni, parmesan osti og Dijon sinnepi:
- 500 g nautahakk
- 150 g beikon
- 1 msk Dijon sinnep
- 5 msk rifið brauð
- 1 egg
- 1 dl ferskrifinn parmesan ostur
- Smjör eða smjörlíki til steikingar
Hitið ofn í 160°. Kurlið beikonið (ég set það í matvinnsluvél) og steikið á pönnu á miðlungsháum hita þar til það er orðið mátulega stökkt. Látið fituna renna af og kælið beikonið aðeins. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og mótið bollur. Steikið upp úr smjöri eða smjörlíki á miðlungsháum hita þar til bollurnar eru komnar með fallega steikingarhúð. Setjið í eldfast mót og inn í ofn í 10 mínútur. Berið fram með rjómasósu og kartöflumús.