Korean Fried Chicken

Kóreskur matur er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég elda hann alltof sjaldan, af ástæðum sem ég get ekki alveg sett fingurinn á. Uppskriftirnar finnst mér oft virka flóknar en það er kannski bara einhver sérviska í mér. Þrátt fyrir að elda sjaldan kóreskan mat, þá hefur þessi kóreski kjúklingur oft verið eldaður því hann er í miklu uppáhaldi hjá okkur og hann er líka sérlega einfaldur. Algjör go-to réttur þegar við viljum borða fyrir framan sjónvarpið og hafa það notalegt. Kjúklingurinn er bragðmikill og mátulega klístraður og kólnar líka vel. Svooooo brjálæðislega gott og mín besta tillaga að sjónvarpsmat.

Korean Fried Chicken (lítillega breytt uppskrift frá Dinner, then dessert):

  • 900 g kjúklingabringur, skornar í 2 cm bita
  • 1/2 bolli kornsterkja
  • 1/4 bolli hveiti
  • 2 egg, upphrærð
  • 1/3 bolli Gochujang paste (fæst m.a. í asískum búðum og Álfheimabúðinni)
  • 1/4 bolli púðursykur
  • 3 msk hrísgrjónaedik
  • 2 msk sojasósa
  • Olía til steikingar


Hitið olíu í djúpum potti þar til hún er 180° heit. Blandið saman Gochujang paste, hrísgrjónaediki, púðursykri og sojasósu í rúmgóðri skál. Veltið kjúklingnum upp úr hveiti, næst eggi og að lokum kornsterkju. Djúpsteikið í 3-4 mínútur í nokkrum skömmtum. Látið renna af kjúklingnum á bökunarpappír. Þegar allur kjúklingurinn hefur verið steiktur eru bitarnir allir settir aftur í pottinn og steikt áfram í 2 mínútur. Látið renna af kjúklingnum aftur og færið hann í skálina með sósunni. Hjúpið kjúklinginn með sósunni, færið yfir í minni skál og stráið sesamfræjum yfir. Berið strax fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir