Þorskur með pepperoni osti og sweet chili

Fyrir skömmu langaði okkur í fisk í matinn en við nenntum alveg ómögulega að fara og gera stórinnkaup, þannig að málunum var reddað með því að kaupa fisk og setja saman eitthvað úr því sem var til hér heima. Ég átti pepperoni ost og rjómaost sem ég vildi losna við úr ísskápnum, ásamt opnum poka af kartöfluflögum sem ég vildi líka losna við. Ég fékk sniðuga hugmynd en var samt hálfhrædd um að útkoman yrði misheppnuð. Þær áhyggjur reyndust óþarfar því útkoman var æðislega góður fiskréttur sem átti að duga í tvær máltíðir en hann var kláraður upp til agna og ég var beðin um að elda hann fljótlega aftur. Allir sem elska fisk bara verða að prófa þennan rétt. Súper einfalt og fljótlegt og alveg klikkgott.

Þorskur með pepperoni osti, sweet chili og kartöfluflögum:

  • 700 g þorskur, skorinn í passlega bita
  • Salt og pipar
  • 1 pepperoni ostur, rifinn
  • 1 askja rjómaostur með svörtum pipar
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1.5 dl rjómi
  • 1/2 grænmetisteningur
  • Kartöfluflögur með paprikubragði

Hitið ofn í 180°. Raðið þorskinum í eldfast mót og kryddið með salti og pipar. Setjið rjómaost, rifinn pepperoni ost , grænmetistening og rjóma í pott og látið ostana bráðna á vægum hita. Þegar osturinn er bráðnaður er sweet chili sósu bætt saman við. Hellið sósunni yfir þorskinn og eldið í ofni í 15-20 mínútur. Takið þá fiskinn út, raðið kartöfluflögum eftir smekk yfir hann og setjið hann aftur í ofninn í nokkrar mínútur. Berið fram með hrísgrjónum.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir