Marengsterta með súkkulaðimús og bingókúlusósu

Þessi marengsterta er í einu orði sagt gjörsamlega dásamleg. Ég hef búið hana til við hin ýmsu tilefni og hún slær alltaf í gegn. Marengsbotn, súkkulaðimús, rjómi, bingókúlusósa, stökkir rice krispies bitar og jarðaber… hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis? Tertan er vissulega ekki beint hrist fram úr erminni en það tekur lúmskt minni tími að græja hana heldur en maður myndi halda. Ég mæli með því að byrja á marengsbotninum og græja svo súkkulaðimús og rice krispies bita á meðan hann er í ofninum. Þegar botninn er kólnaður er upplagt að gera bingókúlusósuna og láta hana kólna aðeins á meðan rjómi er þeyttur. Tímanum sem er varið í gerð þessarar tertu er hverrar mínútu virði og ég mæli eindregið með að þið prófið.

Marengsterta með súkkulaðimús, rice krispies bitum og bingókúlusósu:

Marengsbotn:

 • 4 eggjahvítur
 • 2 dl sykur
 • 1 dl púðursykur
 • 5 dl Rice Krispies

Hitið ofn í 150°. Stífþeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur saman. Hrærið Rice Krispies varlega saman við með sleikju. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír og mótið 25-30 cm hring með deiginu á plötunni. Bakið í klukkutíma, þegar hann er liðinn er slökkt á ofninum (án þess að opna hann) og botninn látinn kólna þar í a.m.k eina klukkustund. Færið marengsbotninn varlega yfir á disk þegar hann er alveg kólnaður.

Súkkulaðimús:

 • 2 eggjarauður
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 2.5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og látið það kólna lítillega. Hrærið eggjarauðunum varlega saman við súkkulaðið. Léttþeytið rjómann og blandið honum svo varlega saman við súkkulaðiblönduna í nokkrum skömmtum. Látið súkkulaðimúsina stífna í ísskáp.

Rice Krispies bitar:

 • 5 dl Rice Krispies
 • 50 g Rolo
 • 50 g suðusúkkulaði
 • 50 g smjör
 • 2 msk síróp

Klæðið lítið smelluform með bökunarpappír og smyrjið hliðarnar (ég nota 18 cm smelluform, finnst það mjög passlegt). Setjið Rolo, suðusúkkulaði, smjör og síróp saman í pott og látið bráðna við vægan hita. Takið af hitanum og blandið Rice Krispies saman við og þrýstið blöndunni í smelluformið. Setjið í ísskáp. Skerið í passlega bita þegar þetta er nægilega stífnað.

Bingókúlusósa:

 • 100 g suðusúkkulaði
 • 1 poki Bingókúlur
 • 1/2 dl rjómi

Setjið allt saman í pott og látið bráðna við vægan hita. Látið kólna aðeins áður en sósan er sett á marengsinn.

Önnur hráefni:

 • 4 dl rjómi, þeyttur
 • Jarðaber eftir smekk, skorin í tvennt

Þegar marengsinn er kólnaður og kominn á disk er helmingnum af bingókúlusósunni dreift yfir botninn. Næst er súkkulaðimúsinni deift yfir bingókúlusósuna og þeytta rjómanum yfir súkkulaðimúsina. Raðið Rice Krispies bitum og jarðaberjum yfir. Endið á að dreifa restinni af bingókúlusósunni yfir Rice Krispies bitana og jarðaberin. Látið standa í ísskáp þar til borið fram.

deila uppskrift:

Facebook
Twitter
Pinterest

Fleiri uppskriftir